151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þykkjuna fyrir Þjóðviljann. Það var ekki mín ætlan að móðga þá ágætu stofnun. Hins vegar hafði ég þessar upplýsingar eftir þaulkunnugum fjölmiðlamanni og það kann vel að vera, vegna þess að Þjóðviljinn á sér lengri sögu en þingmaðurinn, sem er á besta aldri, að það hafi verið enn fyrr, áður en hv. þingmaður komst til vits og ára, sem Þjóðviljinn lokaði klukkan þrjú á daginn fyrir fréttir næsta dags.

En einmitt út af því að hv. þingmaður sagðist vera í hópi þess stóra meiri hluta þjóðarinnar sem treystir RÚV fullkomlega vildi ég ánýja það sem ég sagði áðan um tillögu Miðflokksins um það að fólk geti tekið hluta af útvarpsgjaldinu og ávísað því á fjölmiðla sem því best líkar. Það væri í sjálfu sér staðfestingin á því hvaða hug fólk ber til RÚV ohf. og hvaða traust fólk hefur á þeim fjölmiðli ef fólk mætti ávísa hluta af útvarpsgjaldinu á þá fjölmiðla sem því best líkar. Ef almenn ánægja er ríkjandi með RÚV myndi RÚV í engu tapa á því.

Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður sagði í sínu ágæta andsvari, að mér hefur orðið tíðrætt um RÚV í ræðu minni vegna þess sem ég sagði áðan að það er ekki minnst á RÚV í frumvarpinu sem er um frjálsa fjölmiðlun. Ef það er ekki það ágæta fyrirtæki sem hefur áhrif á frjálsa fjölmiðlun, bara með yfirburðastöðu sinni, þá veit ég ekki hvað og það er með miklum ólíkindum að menn skuli ekki hafa tekið þessi RÚV-áhrif inn í frumvarpið.