151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það væri óskandi ef við gætum stutt þetta mál. Því miður er ekki svo. Minni hlutinn lagði hér fram breytingartillögu sem endurspeglar svolítið hluta vandans sem er sá að við, löggjafinn, stjórnmálamennirnir, þurfum að velta fyrir okkur hvaða fjölmiðlar það eru sem við viljum láta hafa peninga. Það eru ekki endilega ósvaranleg spurning. Vandi fjölmiðla er gríðarlega stór. Fjölmiðlar eru nógu mikilvægir og það er nógu augljóst til að ég þurfi ekki að hafa um það mörg orð. En hann endurspeglast strax hér á Alþingi vandinn sem við stöndum frammi fyrir með því að beita þessari aðferð. Ef tillagan sem var lögð fram hefði verið samþykkt myndum við vafalítið styðja málið en með hliðsjón af því sem á undan er gengið og því sem er viðbúið þá treystum okkur ekki til að styðja málið að svo stöddu.

Að lokum vil ég minna á að það eru fleiri hugmyndir sem hafa komið fram til að styðja við bakið á einkareknum fjölmiðlum. Það eru fleiri en ein og það eru fleiri en tvær. Þær hafa komið fram. Hér er ekki tími eða endilega ástæða til að ræða það nánar (Forseti hringir.) en ég vil bara minna á að þetta er ekki eina leiðin.