151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem ég var í öllum meginatriðum sammála. Ég ætla hins vegar að gera heiðarlega tilraun til að vera ósammála hv. þingmanni, vegna þess að í þessari ræðu, eins og fleirum sem hann hefur haldið, talar hann um báknið eða ríkisrekstur í tón sem mér þykir bera keim af einhvers konar aðdáun á ríkisrekstrinum.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að þótt ég aðhyllist vissulega ríkisrekstur á ýmsum sviðum, til að mynda löggæslu, þá get ég ekki sagt að ég sé mjög hrifinn af því að ríkið sé að gera hluti sem einkageirinn getur gert. Aftur á móti erum við með afskaplega lítið hagkerfi á Íslandi, sér í lagi þegar við erum með þennan sjálfstæða gjaldmiðil og öllu sem honum fylgir, einangrunina sem honum fylgir, og því er kannski ekki samkeppnisumhverfi hér fyrir allan þann iðnað sem væri til staðar erlendis. Þess vegna hallast ég meira til vinstri í þeim efnum á Íslandi en ef ég byggi í stærra samfélagi eins og í Evrópusambandinu eða Bandaríkjunum. Þar er miklu meira svigrúm til samkeppni og þess háttar.

Hins vegar er ég á móti t.d. bákninu sem er Útlendingastofnun og vildi óska þess að við myndum draga úr því bákni sem við erum búin að skapa þar til þess að halda fólki úti. Að því leyti get ég tekið að hálfu undir málstað hv. þingmanna Miðflokksins þegar þeir segja: Báknið burt. Vissulega. En við skulum huga að því hvar það stendur og hvaða hlutverki það gegnir. Þegar ég hugsa um báknið sem almennur borgari þá sé ég mig fyrir mér að hringja eitthvert til ríkisins af því að ég þarf að fá eitthvað eða vita eitthvað og ég finn ekki upplýsingar sem því tengjast. Ég þarf að skila eyðublöðum sem ég skil ekki og allt verður flókið og erfitt einhvern veginn. Þetta kannast fólk í atvinnulífinu við en líka bara almennir einstaklingar sem þurfa að nýta þjónustu ríkisins. (Forseti hringir.)

Ég kom upp til að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þetta í þeirri von að við getum nýtt þetta tækifæri til þeirra heimspekilegu vangaveltna.