151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem annálaður miðjumaður verð ég að segja að ég er ekki alveg kominn að endanlegri niðurstöðu persónulega hvað varðar þessa spurningu, þ.e. einkarekstur á móti ríkisrekstri í heilbrigðiskerfinu. Ég skil alveg sjónarmið beggja megin en verð þó að segja að persónulega er ég farinn að hallast meira að því að það sé ekkert að því að hafa einkarekstur svo lengi sem fjármögnunin komi úr samneyslunni. Það er lykilatriðið. Mér finnst áhugavert við þá umræðu að við séum stödd á þeim stað í henni að við spyrjum hvort það séu einkaaðilar sem veiti þjónustuna eða hvort það eigi að vera ríkisstofnun sem veiti þjónustuna, en það er enginn sjáanlegur ágreiningur um að það eigi að fjármagna þessa þjónustu úr ríkissjóði, meginupphæðina. Ég heyri enga umræðu eða rökræðu um það. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga.

Ég segi stundum um okkur kratana, ég tel sjálfan mig vera krata og tel reyndar yfirgnæfandi meira hluta Íslendinga vera það, að vandi okkar sé sá að við séum búnir að vinna. Það er svo margt sem kemur úr þeirri átt sem er bara orðið norm í dag. Eitt af því er auðvitað að heilbrigðiskerfið er fjármagnað af samneyslunni, annað er almannatryggingar og atvinnuleysisbætur og ýmislegt fleira, sem er í raun og veru ekki lengur rökrætt um hvort eigi að vera til staðar eða ekki, heldur frekar um einhver útfærsluatriði eins og þessi.

Að því sögðu þá heyrði ég einmitt í umræðunni áðan, og ég skil alveg og ber virðingu fyrir því sjónarmiði að ef einkarekstur er of mikill og yfirvöld vilja draga úr hinu svokallaða bákni, hvernig sem þau skilgreina það, þá getur myndast ákveðin tilhneiging til að grafa vísvitandi undan opinbera hlutanum til að leiða fólk yfir í einkageirann. Það tel ég ranglátt og ég er á móti því. En ég er ekki alveg sannfærður um að það fyrirbyggi að einkarekstur eigi sér stað. Ég lít frekar á það sem vandamál sem hægt er að koma til móts við með einhvers konar reglusetningu eða viðmiðum eða hvaðeina. Ég verð að viðurkenna að ég þekki málaflokkinn einfaldlega ekki nógu vel til að koma með uppbyggilegar hugmyndir í þeim efnum. (Forseti hringir.) Ég er pínulítið á báðum áttum en ég hallast að því að einkarekstur sé í lagi að því gefnu að fjármögnunin sé úr samneyslunni.