151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[14:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál sýnir eins og mörg önnur mál hvað það er orðið mikið vantraust í þessu samfélagi, það er engum treystandi til neins. Ég tek alveg undir það að við eigum ekki að vera að nota opinbera sjóði á neinn hátt til að reka kosningabaráttu okkar, ég get alveg tekið undir það. En ég vil þá biðjast afsökunar á því að landsbyggðin sé til, að landsbyggðin geri kröfu til þess að fá sína þingmenn, að fá sína ráðherra óháð því hvort það er kosningabarátta í gangi eða ekki.

Þá vil ég spyrja þetta hv. rétttrúnaðarfólk, sem kemur hér upp og hefur áhyggjur af því hvort ráðherra og þingmenn noti bílastyrki í kosningabaráttu: Notið þið opinber fjárframlög til stjórnmálaflokka í auglýsingar, aðstoðarmenn þingflokka og annað til að undirbúa mál fyrir kosningabaráttuna? Eigum við ekki bara að taka alla peninga af stjórnmálaflokkunum hjá hinu opinbera og leyfa þeim að sjá um sig sjálfa, eins og við eigum að gera hér? Ég held að við þurfum að vera samkvæm sjálfum okkur alla leið.