151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það hvarflar ekki að mér að nefndin hafi ekki áhyggjur af skipulagðri glæpastarfsemi og tengslum slíkrar starfsemi við mansal. Það sem ég var að velta fyrir mér var hvort ekki hefði verið rætt samhliða þessum lagabreytingum, sem er rétt hjá hv. þingmanni að eru afmarkaðar, mikilvægi þess að lögreglan fái tæki og tól og fjármagn til að berjast gegn mansali sem fylgir skipulagðri glæpastarfsemi. Það breytir því ekki þótt við skýrum þessa afmörkuðu lagagreinar, eins og hér er gert, að við verðum að sjálfsögðu að hafa tækin og tólin til að fylgja því eftir að þessi breyting virki eins og hugmyndin er að hún geri.

Ég tek eftir því varðandi samráð um þetta mál að það hefur ekki verið mikið rætt, og kannski ekki ástæða til. Ég hefði haldið að það væri tilefni fyrir nefndina — og ég tala um nefndina í heild, að sjálfsögðu, og ætla ekki að gera henni upp neinar skrýtnar hugmyndir í því efni — að árétta mikilvægi þess í nefndaráliti að lögregla og þeir sem eru að berjast gegn mansali hafi til þess tækjabúnað, heimildir, fjármagn og þess háttar. Þetta er vitanlega eitt af okkar erfiðustu og stærstu málum í dag. Þegar við erum að fást við mál af þessu tagi þar sem fólki er pínt með einhverjum hætti eða platað inn í einhvers konar nauðungarvistun, nauðungarvinnu eða hvað við köllum það, vændi, þá verðum við að mínu viti að ræða það reglulega að til þess að geta tekið á þeim málum þá þurfa að fylgja tæki og tól og fjármunir.