151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þetta mál er í eðli sínu gott. Ég stend að nefndaráliti meiri hlutans um að þetta mál fái hér framgang. Engu að síður verð ég að láta þess getið að auðvitað nær þetta mál ekki nógu langt þótt ágætt sé. Það helgast kannski af því að það á sér lengri sögu því að hér á Íslandi hefur verið ríkjandi ákveðið fálæti og jafnvel meðvitundarleysi gagnvart því sem kallað er og heitir mansal, hvort sem er vinnumansal eða mansal í vændi eða hverrar gerðar það er. Ég man þá tíð þegar ég starfaði á alþjóðaflugvelli hér suður með sjó, þá voru fyrstu málin að líta dagsins ljós. Þetta var á árunum 1996–2008. Þá skorti sárlega lagastoð til að sækja þessi mál og þau dagaði töluvert uppi og voru ekki sótt eins og hefði verið æskilegt að gera, vegna þess að lagastoð skorti.

Það er reynt að bæta úr þessu, bæði með þessum lögum og við höfum verið að bæta hegningarlögin að öðru leyti hér að undanförnu. Það er góðu heilli gert. En það þarf ýmislegt til til þess að lög sem þessi gagnist. Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að við erum hér að tala um lög sem eru til þess fallin að vernda brotaþola og því miður er það þannig í þessum brotaflokki að þeir sem verða harðast úti vegna þess arna er einmitt fólk sem sakir neyðar eða bágrar stöðu neyðist í mansal, hvort sem um er að ræða vinnumansal eða mansal sem byggist á vændi. Þetta er alþjóðlegt vandamál og hafa borist af því mjög hörmulegar sögur sunnan úr álfu t.d. um vinnumansal sem bitnað hefur hart á þeim sem fyrir því verða, einkum konum. Auðvitað ber okkur skylda til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta sem mest við megum.

Hér á Íslandi hefur verið töluvert um mál sem tengjast einstökum atvinnugreinum; byggingariðnaði, ferðaþjónustu, landbúnaði og fleiru þar sem greinilegt er að brotaþolar eru beittir miklum rangindum og búa líka oft við ófullnægjandi og jafnvel hættulegar aðstæður. Komið hefur í ljós, eins og alkunna er, að t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu er allmikið um húsnæði sem er nýtt sem íveruhúsnæði sem stenst engar öryggiskröfur, hvorki hvað varðar bruna eða annað. Það er náttúrlega ólíðandi að á þessum tímum skulum við Íslendingar yfirleitt bjóða fólki upp á svona kringumstæður. Það er andstætt öllu því sem við stöndum fyrir og höfum reynt að flytja fram, m.a. á alþjóðavettvangi. Það er andstætt öllu sem við höfum verið að starfa að og vinna að í þessum málaflokki að þetta skuli viðgangast hér.

Við Miðflokksfólkið höfum varað við þessu og við höfum varað við skipulagðri brotastarfsemi. Við höfum hér við öll fjárlög sem flutt hafa verið á þessu kjörtímabili borið fram mál til að styrkja bæði lögreglu og tollgæslu til þess að reyna að sporna við þessari brotastarfsemi. Það er eitt, herra forseti, sem ég verð að stinga inn, það er einmitt þáttur tollgæslunnar, það er öryggið á landamærunum, eftirlit með þeim sem hingað koma og ekki síst að vegna fjárskorts er nánast ekkert tolleftirlit með því sem flutt er úr landi, þannig að þýfi sem hér verður til út af brotastarfsemi á greiða leið úr landi án þess að við því sé hróflað vegna þess að tollgæslan hefur ekki starfsfólk til að sporna þar við. Þetta er það sem við höfum verið að ræða hér undanfarin fjárlög og í sérstökum umræðum, í sérstökum umræðum um löggæslu og tollgæslu, sérstökum umræðum um skipulagða brotastarfsemi o.s.frv. Aftur og aftur höfum við bryddað upp á þessum vandamálum, en því miður hefur það verið fyrir daufum eyrum. Og þær tillögur sem við höfum verið að flytja, t.d. til styrkingar lögreglu og tollgæslu í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, hafa yfirleitt verið felldar og jafnvel ekki notið stuðnings allrar stjórnarandstöðunnar sem er mjög bagalegt, að okkur finnst.

En auðvitað er það þannig og það er nú bara að kristallast núna og hefur kristallast mjög lengi — ég sá að nýkjörinn formaður Landssambands lögreglumanna skrifaði grein um daginn þar sem hann orðaði það þannig að verið væri að smyrja lögreglumenn mjög þunnt, ekki síst núna út af því að við vorum að stytta vinnuvikuna. Það virðist vera sjálfstætt vandamál, herra forseti, að þeir sem sömdu um styttingu vinnuvikunnar virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að sá gjörningur myndi kosta peninga. Nú eru að stinga upp kollinum alls konar vandamál í hinum ýmsu starfsgreinum þar sem kemur í ljós að það skortir sárlega fé til að standa undir þessari gerð. Það virðist vera þannig, herra forseti, að menn verði bara hissa í framan þegar þetta hefur komið í ljós. Og svo flatt virðist þetta koma upp á menn að bara í gær, held ég, boðaði formaður hv. fjárlaganefndar í viðtali að lögreglan myndi fá í sinn hlut 900 millj. kr. vegna styttingar vinnuvikunnar. Mjög góð yfirlýsing, ég tek það fram, en furðuleg í ljósi þess að í fyrradag og í gær vorum við að ræða fjáraukalög og ég man ekki til þess að hafa séð í því plaggi neitt sem styður við þessar greiðslur til lögreglunnar. Og síðan heyrum við fregnir af því í dag að Landspítalinn áætli að stytting vinnuvikunnar kosti Landspítalann 2 milljarða kr. á ári og það þurfi að ráða 200 manns til starfa.

Ég spyr aftur, herra forseti: Var mönnum þetta ekki ljóst með neinum hætti þegar um þetta atriði var samið? Vissu menn ekki að þetta myndi kalla á aukinn mannafla og auknar fjárheimildir? Og nú ætla ég enn að rifja það upp að til þess að skaffa einn sólarhringsmann á átta tíma vöktum, sem eru núna væntanlega orðnar ólöglegar samkvæmt þessum samningum um styttingu vinnuviku, til þess að dekka einn mann í sólarhring þurfum við sex og hálfan, vegna þess að það eru alltaf tveir á hverri vakt. — Nú er ég að tala um 12 tíma vaktir, fyrirgefið, herra forseti, sem eru væntanlega núna orðnar ólöglegar með þessu, því að átta tíma vaktirnar kalla náttúrlega á miklu meiri mannskap. En 12 tíma vaktir eru einfaldari. Þá eru tveir á vakt og tveir í fríi og fjórði og fimmti dekkar sumarfrí, veikindaleyfi, námskeiðahald o.s.frv.

Þannig að núna þegar við erum búin að stytta vinnuvikuna þá fjölgar enn í þeim hópi sem þarf til þess að klára eina sólarhringsvakt. Þetta hefðu menn kannski betur reiknað út áður en til þessara samninga var gengið því að þetta veldur greinilega miklum usla. Mig minnir að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi talað um það í viðtali núna í gær eða fyrradag að til að laga þennan vanda hér á þessu svæði þyrfti 90 manns.

Við erum náttúrlega nýkomnir út úr því ástandi, herra forseti, að hafa breytt lögreglumenntun í landinu, sem er hið besta mál, en henni var breytt yfir nótt, svona eins og maður segir, þannig að það var enginn fyrirvari á einu eða neinu, sem þýddi að við þennan gerning misstum við út tvo árganga af lögreglumönnum. Og þrátt fyrir það að núna, með nýrri leið til menntunar, hafi útskriftarnemum fjölgað þá tekur nokkur ár að vinna það upp að þarna er tveggja ára gat í útskrift á lögreglumönnum. Því miður er það þannig, t.d. í þessum málaflokki, og ég er búinn að gagnrýna það mjög.

Við vorum að samþykkja ný lög um daginn þar sem var gert ráð fyrir því að lögregluráð yrði sett á. Það var löngu búið að setja þetta til lögreglunnar, herra forseti, án þess að lagaheimild væri til. Ég gagnrýndi það á sínum tíma, bæði hér og annars staðar, vegna þess að manni finnst að fjórar, fimm síðustu stóru breytingarnar á starfsemi lögreglu hafi í raun verið komnar til framkvæmda áður en þær komu hingað inn til afgreiðslu. Það er afskaplega slæmt fordæmi þegar löggæslan sjálf fer ekki að lögum, þ.e. byggir ekki á lagastoð sem er ótvíræð og skýr. Sem betur fer hafa ekki orðið neinir eftirmálar af þessu svo ég viti, en það er engu að síður slæmt að þetta skuli gerast, mjög slæmt. Í þessum málaflokki, eins og því miður mjög víða hjá þessari ríkisstjórn, hefur skort heildaryfirsýn, það hefur skort framtíðarsýn.

Þrátt fyrir að búið sé að gera þær breytingar sem búið er að gera — og nú tek ég fram, herra forseti, að ég fagna mjög þeim breytingum sem gerðar hafa verið, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og víðar í rannsóknum á kynferðisbrotum og líka að reynt hefur verið að flýta meðferð þeirra mála fyrir dómi. En því miður missum við allt of mörg mál út án sakfellingar, t.d. út af allt of langri málsmeðferð. Það bitnar á brotaþolanum, því miður. Ég skil þá brotaþola mjög vel sem telja að brotið hafi verið á þeim aftur, bæði í málsmeðferð og við dómsuppkvaðningu þegar meintir brotamenn ganga frjálsir ferða sinna eftir að málin hafa kannski tekið tvö til þrjú ár í meðferð, sem er allt of langur tími. Sjónarhornið á þessi mál hefur greinilega verið rangt. Menn hafa einblínt á stöðu meints sakbornings en ekki tekið nægt tillit til brotaþolans.

Ég hef grun um að það sama hafi verið uppi í þessum málaflokki sem við erum að tala um, þ.e. varðandi mansal. Eins og ég sagði áðan er mansal angi af skipulagðri glæpastarfsemi, jafnvel alþjóðlegri. Smygl á fólki yfir landamæri er t.d. jafn stór iðnaður og jafn ábatasamur og fíkniefnasmygl. Við höfum séð það og heyrt að fólk finnst látið í gámum hér og þar um Evrópu. En sá sem stóð fyrir smyglinu var búinn að fá borgað, við getum alveg verið vissir um það, en kærir sig kollóttan um hvort sá sem greiddi kemst heill á húfi á leiðarenda.

Þetta er mál sem krefst þess að við tökum öflugan þátt, Íslendingar, í alþjóðlegu samstarfi til að kveða niður mansal. Við getum ekki horft fram hjá því að mansal og brot gegn þessu fólki beinist einkum að fólki sem á undir högg að sækja, jafnvel fötluðum, fólki sem býr við bág félagsleg kjör. Í okkar tilfelli hefur verið flutt hingað fólk sem ekki er mælandi á íslenska tungu og getur ekki borið upp erindi sín hjálparlaust við yfirvöld eða aðra. Það getur ekki látið vita af því ef það telur á sér brotið, þannig að það er níðst á þessu fólki með mjög afgerandi og mjög grimmilegum hætti. Auðvitað verðum við að gera allt sem við getum gert til þess að kveða niður þessa brotastarfsemi. Ég sagði, herra forseti: Þetta er alþjóðlegt vandamál. Þetta er alþjóðlegt verkefni. Við höfum orðið vör við það að hér á landi hefur innflutt skipulögð brotastarfsemi verið að eflast undanfarandi ár. Þar höfum við, því miður, haft uppi sama fálætið og í þeim brotaflokki sem þetta frumvarp fjallar um. Ekki er tekið nógu skýrt á því að hér séu starfandi erlendar glæpaklíkur sem eru þaulskipulagðar og miklu skipulagðari en margt annað sem við höfum séð áður.

Því miður er heimurinn, og þar með talið Ísland, ekki jafn saklaus og áður var. Við verðum að horfast í augu við þennan kalda veruleika, herra forseti, og við verðum að vinna á móti því að starfsemi sem þessi geti grafið hér um sig. Við erum með nýlegt mjög hörmulegt mál sem tengist einmitt alþjóðlegri glæpastarfsemi og við þurfum að kappkosta að uppræta þessa starfsemi eins og við getum best. Það gerum við náttúrlega fyrst og fremst með því að efla hér löggæslu og efla öryggi á landamærum. Ég minntist á hörmulegt mál áðan sem er nú nýdómtekið, en þar fannst morðvopn fyrir árvekni lögreglu. Morðvopnið var skammbyssa með hljóðdeyfi. Einhvern veginn hefur hún ratað til Íslands. Hún hefur ekki verið flutt inn í farangri, myndi maður ætla, hún hefur ekki verið flutt inn svona sem almenn póstsending. Hún hefur ekki komið löglega til Íslands.

Þess vegna höfum við Miðflokksfólkið lagt áherslu á aukna tollgæslu. Menn hafa sumir hverjir horft vorkunnaraugum á okkur og sagt að tollgæsla væri nú bara barn síns tíma og menn væru ekkert að eltast við eitthvað í ferðatöskum ferðamanna núna. En tollgæsla gengur ekkert út á það, herra forseti, og það höfum við reynt að sýna fram á. Við höfum t.d. bent á að það hefur verið mikil brotalöm í meðferð á gámum og gegnumlýsingu gáma í gegnum tíðina. Þar eru líka brotalamir í því að við erum ekki með nógu marga fíkniefnahunda og þeirra hlutverk hefur verið talað niður á ólíklegustu stöðum upp á síðkastið.

En þetta eru allt saman mál sem við verðum að taka á til að kveða niður brotastarfsemi sem elur af sér mansal, sem elur af sér fíkniefnabrot, sem elur af sér morð og manndráp. Ein brotastarfsemi eltir aðra. Það flækir þetta mál líka. Þannig kom t.d. í ljós á ráðstefnu sem Reykjavíkurborg hélt fyrir nokkrum árum að aðalvettvangur vændis í Reykjavík var í Airbnb-gistingum sem voru þá undir litlu eftirliti. Þannig að það fer ekki hjá því að ein brotastarfsemi eltir aðra og styrkir í mörgum tilfellum aðra brotastarfsemi. Það er þetta sem við þurfum að koma í veg fyrir með því að efla löggæslu í landinu og efla tollgæsluna.