151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[19:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Frú forseti. Umræðan hér í dag hefur að mörgu leyti verið mjög áhugaverð. Fjallað hefur verið um mál sem lætur ekki mikið yfir sér. Í raun er verið að bæta réttarumhverfi eða gera réttarbætur fyrir þolendur mansals, en mansal er gríðarlega alvarleg meinsemd og ekki bara í okkar samfélagi heldur í samfélagi heimsins. Það er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni að það skuli vera svona stór atvinnuvegur, skulum við segja, hjá glæpamönnum að svindla og svíkja fólk, misnota það, selja það í ánauð og hvað sem við köllum það. Þetta er málefni sem margar alþjóðastofnanir hafa látið til sín taka, eins og við þekkjum, og mikið er fjallað um en illa gengur að uppræta. Ég hef ekki lausnina sem þarf til að uppræta mansal en við hljótum hins vegar að vilja gera eitthvað. Við þurfum að sjálfsögðu að bæta réttarumhverfi þeirra sem eru þolendur slíkra glæpa. Við þurfum líka að reyna að koma í veg fyrir slíka glæpi og handsama eða góma glæpamennina sem eru að selja fólk í ánauð. Það þarf að sækja slíka aðila til saka og dæma þá.

Þetta er meinsemd í hverju samfélagi, það er alveg ljóst. En það er líka margt sem tengist þessu máli. Fólk sem leitar sér að betri lífskjörum á flótta eru kjörin fórnarlömb, ef þannig má orða það, þeirra sem stunda mansal. Við þekkjum líka sögur af því og jafnvel dæmi um að fólki er rænt, sérstaklega konum og börnum, og dæmt í einhvers konar ánauð, hvort sem það er þrælavinna, vændi eða slíkt, misnotkun. Allt eru þetta skelfilegar sögur sem við lesum og við þurfum öll að leggjast á árarnar í því að uppræta mansal.

Ég átti þess kost fyrir nokkrum árum að funda með þáverandi yfirmanni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem gerði mansal að sérstöku umtalsefni og varaði mjög við því mansali sem flóttamenn verða fyrir, og ekki síst börn. Þegar börn eru send af stað, kannski af fátækum heimilum, nokkur börn jafnvel, í leiðangur til að leita að betra lífi verða þau oft, það eru alla vega dæmi um það, fyrir glæpagengjum, þeim er rænt eða þau með einhverjum hætti hneppt í ánauð sem er kölluð mansal. Á þessum tíma var verið að vara við því að lönd gerðust sérstaklega talsmenn þess að taka við slíkum einstaklingum, þ.e. að búa ekki til hvata til að senda börn af stað og þá um leið hvata fyrir glæpamenn til að fylgjast með og reyna að komast í tæri við umrædda einstaklinga. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur, að mínu viti, að vera alveg skýr í málflutningi okkar og að sjálfsögðu líka í aðgerðum, að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að hingað leiti fólk sem vill ekki vera hérna, er kannski sent hingað eða einhvern veginn platað af stað, að það lendi hér hjá okkur. Kannski er betra að það lendi hér en einhvers staðar annars staðar, menn geta alveg haft skoðun á því, en við eigum að reyna að koma í veg fyrir hvata í þá átt.

Ég ætla líka, herra forseti, að nota nokkrar mínútur í að nefna eitt sem mér finnst mikilvægt í málinu öllu saman en það er að lögregla og aðilar sem fylgjast með og reyna að koma í veg fyrir mansal — og ég ítreka að koma í veg fyrir mansal — hafi til þess fjármagn og að sjálfsögðu líka þeir sem vinna við að reyna að hafa uppi á þrjótum sem misnota fólk með þessum hætti. Ég tek undir það með hv. þingmanni sem hér talaði áðan, Helga Hrafni Gunnarssyni, hvað varðar fjármagn og góða þjálfun. Við þurfum líka að veita þessum aðilum heimildir til að rannsaka, heimildir til að koma í veg fyrir, ef mögulegt er, að slík brot eigi sér stað eða þá að grípa inn í fyrr ef ekki er hægt að kom í veg fyrir brotið. Mögulega þarf fjármuni og þekkingu, reynslu eða einhvers konar kunnáttu til að hafa aukið samstarf. Ég viðurkenni fúslega að ég þekki það ekki nógu vel.

Stóra myndin þarf að vera sú að við horfum á þessa meinsemd út frá heildarsamhenginu, hvað við getum gert með heildarmyndina í huga. Við þurfum að hafa hlutverk okkar skýrt í því öllu. Það þarf að senda skýr skilaboð frá Íslandi varðandi allt sem viðkemur skipulagðri glæpastarfsemi. Á það hefur verið bent í skýrslu ríkislögreglustjóra að skipulögð glæpastarfsemi tengist einmitt mjög sterkt þessum mansalsmálum, þeirri meinsemd sem mansal er, og við þurfum þar af leiðandi að horfa mjög sterkt til þess að veita fjármagn eða opna á þær leiðir sem löggæslustofnanir okkar þurfa til þess að grípa inn í og til þess að koma í veg fyrir að skipulögð glæpastarfsemi nái að þróast áfram.

Herra forseti. Ég verð því miður að segja að mér virðist sem núverandi ríkisstjórn hafi algerlega brugðist í þeim leiðangri að koma í veg fyrir að skipulögð glæpastarfsemi nái frekari fótfestu hér. Ég er ekki að segja að slík starfsemi hafi byrjað í tíð þessarar ríkisstjórnar, alls ekki, en fótfestan virðist meiri og umfangið virðist hafa stóraukist. Við þurfum að sjálfsögðu líka að sinna samstarfi okkar erlendis í gegnum tengsl okkar og tengiliði eða stofnanir, sendiráð þess vegna, eða alþjóðastofnanir, við þurfum að vera öflug þar, koma þar sterkar inn til að geta fengið kunnáttu og þekkingu og tekið þátt í að koma í veg fyrir þessa starfsemi og miðla því þá heim að sama skapi.

Ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á það hér að við höldum áfram að ræða opinskátt allar hliðar þess ömurlega máls sem mansal er, að við höldum áfram að bæta aðbúnað fyrir þolendur þessara glæpa og að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að alþjóðleg glæpasamtök nái að skjóta frekari rótum hér en orðið er og að við vinnum náið með okkar samstarfsþjóðum erlendis í því að koma í veg fyrir slíkt og uppræta starfsemi þessara aðila. Við höfum því miður nýlega séð ákveðna mynd af þessari starfsemi, þegar einstaklingar hafa látið lífið út af einhvers konar uppgjöri eða hvað það er. Við þurfum að axla ábyrgð. Við þurfum að hafa löggjöfina okkar skýra og við þurfum líka að senda skýr skilaboð út í heim um að Ísland sé ekki og verði ekki staður fyrir glæpasamtök til að vaxa og dafna og þar ber enginn meiri ábyrgð en akkúrat ríkisvaldið. Ef eitthvað er upp á okkur á Alþingi að klaga þurfum við að sjálfsögðu að axla þá ábyrgð og veita aukið fé til þeirra aðila sem eru að fást við þetta. Ég get ekki ímyndað mér að það sé öfundsvert að vera starfsmaður þessara góðu löggæslustofnana sem við höfum og fást við þessa starfsemi, sem virðist hafa vaxið mjög hratt og mikið þó að okkar góða fólk sé að gera sitt besta.

Ég ætla ekkert að hafa þetta mikið lengra. Ég held að málið sé í sjálfu sér ágætt. Ég hefði kosið að þörfin fyrir aukna fjármuni og sterkari löggæslu hefði verið ávörpuð og þörfin fyrir eftirlit til að uppræta þessa starfsemi. Það væri til bóta og kann að vera, fari málið til nefndar milli umræðna, að til framhaldsnefndarálits komi þar sem tekið yrði á því. Að því sögðu, herra forseti, þakka ég fyrir þessa umræðu og lýk máli mínu.