151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir leiðréttinguna hér áðan. Þingmaðurinn tók einfaldlega ekki eftir því úr hvaða kjördæmi hann kom eitt augnablik, en það er komið á hreint sem betur fer.

Ég þakka þingmanni fyrir svarið. Það er alveg ljóst að Miðflokkurinn og Viðreisn voru sammála um það þegar faraldurinn skall á og við sáum hver viðbrögðin yrðu að það yrði að taka stór skref, taka í rauninni á málinu í heild. Því miður var það ekki gert. Hins vegar held ég að það sé rétt að menn hafi gert sitt besta, allir sem einn.

Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé vilji eða viljaleysi, ef svo má kalla, hjá ríkisstjórninni til að taka á erfiðum málum sem gerir það að verkum að þetta er bara afgreitt eins og þetta sé of stórt mál þegar við komum að því hvort æskulýðsfélögin og stúdentar hefðu átt að fá þarna einhvern stuðning.

Þá leiði ég hugann að öðru máli sem er kannski ótengt þessu en við höfum séð t.d. að ríkisstjórnin ákvað að láta enga fjármuni renna til sjálfstæðra fyrirtækja í menntageiranum heldur setti allan stuðninginn til ríkisapparatsins, í staðinn fyrir að styðja við þau fyrirtæki eða einkaaðila sem bjóða upp á menntun. Þá veltir maður fyrir sér: Bíddu, af hverju var ekki heildarmyndin skoðuð þar og þeir einnig látnir fá stuðning? Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það skorti í sjálfu sér kannski ekki vilja til að gera hlutina, alla vega ekki út á við. En núna þegar menn höfðu tækifæri til að bæta við í þessu máli, bæði æskulýðshreyfingunni og koma til móts við stúdenta, þá veltir maður fyrir hvort það skorti vilja eða skorti fjármagn, skorti getu eða skorti yfirsýn. Eitthvað er það sem gerði það að verkum að menn treystu sér ekki til að bregðast við þessum óskum.