151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú þannig gerður og hégómlegur að þegar auglýst er eftir mér þá mæti ég gjarnan á vettvang. Ég heyrði að hv. þingmaður hefði saknað mín eitthvað áðan þannig að ég rauk náttúrlega til. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði ræðu mína þá fyrri þar sem ég fór nokkuð gaumgæfilega yfir þessi mál og þar á meðal bæði þessi meintu misferli, þ.e. að fólk væri hafna vinnu sem því hefði boðist og einnig að vinnuveitendur hefðu sagt upp hópi fólks og ráðið aftur fólk þar sem bætur dekkuðu laun þess.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann, af því að það kom ekki fram í ræðu hennar, hvað henni fyndist um ákveðna mismunun sem er í þessu frumvarpi gagnvart t.d. þeim sem sækja fundi hjá KFUK (Forseti hringir.) eða sækja skátastarf, þ.e. að ekki skuli ganga það sama yfir þessi tvö kerfi eins og íþróttahreyfinguna.