151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna, fyrir áhugaverða greiningu og yfirferð og samanburð á stöðu stúdenta. Ég tek fullkomlega undir með þingmanninum að nauðsynlegt sé að setja hlutina í stærra samhengi. Kannski er aðeins önnur staða hjá íslenskum stúdentum en á mörgum öðrum stöðum. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé alls staðar, en í það minnsta á mörgum öðrum stöðum.

Við höfum hér ríkisstjórn sem er jú að koma með einhvers konar aðgerðir, eins og hv. þingmaður nefndi, búa til einhver störf, en samt er eins og menn taki bara stutt skref, stígi ekki skrefið til fulls, eins og t.d. með því að fara í þá aðgerð að námsmenn myndu falla undir þetta frumvarp, þessar breytingar sem við erum að ræða akkúrat núna. Maður veltir því þá fyrir sér: Hvers vegna ekki? Er það vegna þess að yfirsýnin er ekki til staðar? Tala kerfin og ráðuneytin eða stofnanirnar ekki saman? Hvað gerir það að verkum að ekki er hægt að horfa á þetta heildstætt og segja: Ókei, við ætlum að gera þetta, en þarna er ákveðinn hópur sem þarf líka að koma til hjálpar, það eru ekki nógu mörg störf fyrir alla stúdenta o.s.frv.? Það verður að vera til varkerfi, það verður að vera til plan B eða C eða hvað við köllum það. Er það vegna þess að yfirsýnina skortir?

Menn völdu þá leið að fara í viðbragðsaðgerðir við því sem kom upp í tengslum við þetta Covid ástand allt saman. Ekki var farið í einhvers konar forvarnir með því að horfa á málið heildstætt. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort vandinn geti verið sá að stjórnvöld hafi hreinlega ekki yfirsýn yfir vandann þegar kemur að stúdentum og taki þess vegna þessi hálfu skref, ekki þau stóru.