151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það væri mjög spennandi og í rauninni skemmtileg áskorun að horfa til þess og reyna að teikna upp kerfi þar sem við gætum séð fram á að fólk gæti verið í námi og þá jafnvel hugsanlega flýtt sínu námi með því að það væri annars konar stuðningskerfi við námsmenn. Mér finnst það mjög spennandi tilhugsun. Það sem ég var hins vegar að vitna til, og fleiri, er að alla vega eins og systemið er í dag hafa námsmenn margir hverjir unnið sér inn ákveðin réttindi, ef maður má orða það þannig, og þeir eiga að sjálfsögðu að geta sótt þau. En mér finnst það mjög spennandi hugsun og hugmynd hjá hv. þingmanni að velta því upp hvort við gætum mögulega blandað saman og sett saman kerfi sem lagaði sig meira að þörfum stúdenta en er í dag. Þetta eru einhvern veginn kassar sem við erum svolítið föst í. Eins og svo oft áður þegar ég er í einhverri nefnd með hv. þingmanni þá er þetta bara mjög spennandi.