151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og mikilvæga spurningu. Það er nú þannig með hælisleitendur að þeir eru í viðkvæmri stöðu. Það er hægt að skemma mjög mikið fyrir þeim, sér í lagi þegar þeir þurfa, t.d. til að hafa tekjur af atvinnu, að hafa sérstakt leyfi yfirvalda til þess, takmörkun sem ég skil ekki alveg sjálfur ef ég á að segja alveg eins og er. Við getum eflaust rætt það við betra tækifæri og vonandi í samhengi við annað mál. En þegar fólk er sett í viðkvæma stöðu gagnvart yfirvöldum verður auðveldara að kúga það og misnota. Það á við um allar manneskjur, þar á meðal hælisleitendur. Ef þeir eru settir í þá stöðu að þeir þurfi að passa sig rosalega mikið á kerfinu — passa að gera allt rétt, mega ekki gera nein mistök, að þeir séu komnir í mikil vandræði ef þeir fremja t.d. minni háttar brot á lögum eða ef þeir uppfylla ekki einhver skilyrði fyrir því að mega vinna eða missa réttindin til að fá aðstoð eða eitthvað því um líkt — þá er auðveldara að misnota þá. Það er auðveldara að misnota fólk í þeirri aðstöðu. Þetta er meðal ástæðnanna fyrir því að ég er sjálfur þeirrar skoðunar að til að draga úr slíkum vandamálum og slíkum kúgunaraðstæðum eigi að valdefla einstaklinga og auðvelda þeim að athafna sig í lífinu almennt án þess að vera hrætt við yfirvöld eða hrætt við einhverjar afleiðingar af því að koma hreinskilnislega fram gagnvart yfirvöldum. Það felur í sér tenginguna sem ég hef reyndar nefnt hér í samhengi við annað mál, tenginguna á milli þess að draga úr kúgunarmöguleikum og kúgunaraðstæðum einstaklinga annars vegar og hins vegar almenns frjálslyndis. Ég er á því að frelsið sé ekki bara gott af einhverri rómantískri hugmynd. Það er ekki bara það að dansa nakinn í rigningunni sem er frábært við frelsið. Frelsið er líka gott vegna þess að það dregur úr getu einstaklinga til að kúga hver annan. Þess vegna eigum við að vera frjálslynd, löggjafinn á að mínu mati að vera frjálslyndur, og við eigum að hafa löggjöf sem er eins frjálslynd og við komumst upp með. En í þeim leiðangri er líka mikilvægt að við skiljum og áttum okkur á því hvar ábyrgðin liggur. Sem dæmi: Við eigum ekki að gera þolendur (Forseti hringir.) ábyrga fyrir brotunum sem þeir verða fyrir, við eigum að gera gerendur ábyrga fyrir því. Það gerir þetta frumvarp og þess vegna styð ég það en því miður er fleira að athuga í þessum málaflokki.