151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Að sjálfsögðu væri hér ekki haldið fram þingfundi ef á því væru einhverjir þeir tæknilegu annmarkar að hann gæti ekki farið fram í þeim skilningi að menn gætu flutt hér ræður sínar og upptökukerfið virkar þannig að öll þau gullkorn sem þingmenn láta hér falla verða varðveitt á spjöldum sögunnar o.s.frv. Við höfum lent í þessu áður í vetur og þá var í gangi umræða um utanríkismál og hún hélt áfram í alllangan tíma einmitt við þessar aðstæður. En það er mjög óheppilegt að þetta skyldi koma upp. Það er verið að reyna að leysa málið. Um er að kenna tæknibilun hjá okkar hýsingaraðilum þar sem liggur niðri tengistykki sem því miður virðist tengjast Alþingi einu, eða kannski sem betur fer í þessu tilfelli, en ekki fleiri aðila eins og gerðist um daginn. Það var verið að vonast til að þetta kæmist í lag núna og er verið að reyna að endurræsa kerfið.

En ég heyri hvað hv. þingmenn segja og ég væri algerlega sammála því að það væri ekki hægt að halda lengi áfram með þingfund við þessar aðstæður. Við vorum stödd í miðri 3. umr. um mál þannig að ég hélt kannski að ræðurnar yrðu jafn góðar þó að þetta færi fram við þessar aðstæður. En við skulum ekkert vera að mylja þetta mikið með okkur, forseti, þannig að ég er meðmæltur því að það verði gert hlé á fundinum og við sjáum til. En vandinn er sá að það er erfitt að áætla hvað það á að vera langt. Ég er ekki tilbúinn til að afskrifa það að við neyðumst til að halda eitthvað áfram störfum okkar, jafnvel þótt tækninni verði eitthvað áfátt, en það þyrfti þá að sjálfsögðu að undirbúa það og skipuleggja betur. Hið talaða orð gildir og ræður manna eru fullgildar og þær verða skráðar á spjöld sögunnar eins og áður sagði. Upptökukerfið virkar þannig að að því leyti fer ekkert forgörðum af því sem fram fer á þessum fundi. En séu menn mjög háðir því að geta verið á netinu og sótt sér efni þangað í sínar ræður o.s.frv., þá er það eitthvað sem ber að taka tillit til. Þannig að mín uppástunga væri kannski að við gerðum hálftímahlé núna og sæjum til hvernig málið þróast.