151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég sakna þess nokkuð að hér í salnum skuli ekki vera með okkur að ræða þetta mál ræðudrottning Alþingis til nokkurra ára, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem hvatti okkur Miðflokksmenn til dáða í þessu máli núna rétt áðan. Auðvitað stöndum við undir merkjum og ræðum þetta góða mál sem áður hefur komið fram að er mjög nauðsynleg breyting og réttarbót fyrir þolendur mansals. Í fyrri ræðu minni vitnaði ég nokkuð til BA-ritgerðar, sem ég hafði undir höndum, frá árinu 2012 og fór yfir hvernig heimsvæðingin hefur aukið á vanda tengdan mansali. Höfundur fór í þessari ritgerð líka mjög rækilega yfir afleiðingar mansals og sérstaklega mansals í tengingu við vændi. Það segir einmitt hér, með leyfi forseta:

„Mansal er alvarlegur glæpur sem hefur mikil áhrif á manneskjuna sem lendir í því, bæði andleg og líkamleg. Þetta á ekki síst við um fólk, oftast konur og börn, sem eru seld til þess að vinna í kynlífs- og klámiðnaðinum víða um heim. Ef fórnarlömbin sleppa úr mansalsaðstæðum er oft erfitt fyrir þau að gera grein fyrir því sem þau hafa þurft að ganga í gegnum. Starfsfólk í félagsþjónustu og á sjúkrahúsum þarf að gera sér grein fyrir því sem er í gangi og það getur oft verið erfitt að byggja upp nauðsynlegt traust til að glíma við slík mál, sem verður aftur til þess að fórnarlömbin eiga erfitt með að tjá sig um það sem þau hafa upplifað. Fórnarlömb mansals og ofbeldis sjá oft enga aðra lausn en að snúa aftur í upprunalegar aðstæður sínar, en það er hlutverk þeirra stofnana sem um ræðir hverju sinni og starfsfólks þeirra að gera fólki grein fyrir því að það eru fleiri leiðir í boði. Það tekur fólk misjafnlega langan tíma að vinna úr áföllum sínum, en á meðan ferlinu stendur er mikilvægt að þarfir fórnarlambsins séu virtar og að það fái þá lagalegu aðstoð sem nauðsynleg er. Á Íslandi hafa Stígamót boðið þolendum kynferðisofbeldis aðstoð við að takast á við afleiðingarnar, en starfsfólk Stígamóta er allt konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Ráðgjöfin er því byggð á þeirra eigin reynslu og í því liggur einnig helsta áherslan.“

Herra forseti. Þetta litla brot sýnir hversu alvarlegur glæpur mansal er. Ég fór yfir það hér áðan í fyrri ræðu minni, og mun gera það aftur og árétta það, að klámiðnaðurinn er sífellt vaxandi út af internetinu og klám gerist sífellt grófara og kennir því miður ungum piltum að þetta sé það sem kynlíf eigi að snúast um, sem er svo langt því frá, eins og við vitum. Það breytir ekki því, herra forseti, að við þurfum að tryggja og kappkosta að þeir sem standa á bak við mansal, þ.e. þessi skipulögðu glæpasamtök sem þar vinna, séu teknir úr umferð. Við þurfum að kappkosta að þau nái ekki fótfestu hér á Íslandi. Við þurfum að kappkosta að lögreglan sé það vel fjármögnuð að hún geti tekist á við þá ógn sem stafar af þessum samtökum. Og við þurfum líka að ganga þannig frá málum að landamæri okkar séu tryggð og að öll þau úrræði sem við eigum þar séu nýtt til að koma í veg fyrir að skipulögð glæpasamtök hasli sér völl hér á Íslandi frekar en orðið er. Við verðum að skera upp herör gegn mansali og vændi á Íslandi og við megum ekki spara til þess nokkra krafta.