151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

um fundarstjórn.

[10:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við þinglok í fyrra var frumvarpi þess sem hér stendur, um að ríkisstarfsmenn megi vinna til 73 ára aldurs, vísað til ríkisstjórnar gegn því loforði að það kæmi fram hér á þinginu fyrir síðustu jól. Við það var ekki staðið. Ég hef því lagt þetta frumvarp fram aftur og fer góðfúslega fram á það við forseta að þetta mál verði tekið á dagskrá með afbrigðum. Þó að afdrif þess sýni okkur kannski, vegna þess að nú er verið að semja um þinglok öðru sinni eða í fjórða sinn á þessu kjörtímabili, hversu fánýtt það er að semja um þinglok og semja um afdrif mála ef ekki er staðið við það sem lagt er upp með óska ég þess, herra forseti, að þetta mál, um að ríkisstarfsmenn megi vinna til 73 ára aldurs, verði tekið á dagskrá þingsins með afbrigðum og verði að loknum umræðum vísað til nefndar.