151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[12:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við búum vitanlega við það að ef regla er á hlutum er kosið á fjögurra ára fresti. Stjórnsýslan eða kerfið okkar lifir miklu lengur. Þar af leiðandi er að sjálfsögðu mikil þekking og reynsla sem verður þar til og er þar inni. Þegar við sendum einhvern héðan úr Alþingi inn í framkvæmdarvaldið, inn í ráðuneytið fer hann þangað til að fylgja eftir ákveðnum stefnum og ákveðnum verkefnum. Ég held að það fari líka mjög mikið eftir þeim sem fer þangað inn, hvort viðkomandi berst fyrir málefnum og pólitískum áherslum á hverjum tíma, samfélagslegu áherslunum, hvernig hann nær að snúa því stóra skipi sem er þar fyrir. Ég veit að hv. þingmaður getur ekki komið aftur upp — er það? Jú, einu sinni. Ég er orðinn hálfruglaður í tölunni á þessu.

Ég er reyndar aðeins kominn út fyrir efnið en ég ætla að leyfa mér að nota þessa mínútu í þetta. Ég hef verið talsmaður þess að þegar hv. þingmaður verður ráðherra þá komi hann með töluvert af fólki með sér inn í ráðuneytið, ekki bara einn eða tvo aðstoðarmenn. Það er svo mikilvægt að viðkomandi geti nýtt þessi fjögur ár til að vinna að þeirri stefnu sem hann er kosinn til að vinna að. Ég hef mjög góða reynslu af þeim ráðuneytum sem ég hef unnið í, það var mjög þægilegt. Og ef ég kallaði eftir fleiri valkostum, kallaði eftir því að fá sundurgreiningu á einhverju og rökstuðning, þá kom það alltaf. Menn verða náttúrlega að gera það með þeim hætti. Það þarf hins vegar líka að ná til þingsins. Það er ekki nóg að ráðherrann sitji með fullt af valkostum fyrir framan sig sem hann stingur svo ofan í töskuna og læsir ef hann getur ekki sýnt þinginu hvað það er sem stóð til boða.