151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[13:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er þannig með þessi fjáraukalög sem við erum að ræða hér og umfang þeirra að þau endurspegla allnokkra hluti í fari þessarar ríkisstjórnar sem nú situr og það er t.d. tregða ríkisstjórnarinnar og tregða hæstv. fjármálaráðherra við að innheimta þegar álögð gjöld. Það vill þannig til að við fjögur síðustu fjárlagafrumvörp höfum við Miðflokksfólk lagt fram fjármagnaðar tillögur sem ekki kalla á skattahækkanir, sem hafa verið því marki brenndar m.a. að auka skilvirkni í innheimtu þegar álagðra gjalda, ekki ný gjöld heldur þegar álögð gjöld. Satt að segja hefur þessum tillögum verið tekið af töluverðu fálæti og eiginlega ótrúlegu fálæti og nú er ég að tala um aðgerðir sem hefðu t.d. stuðlað að því að umfang þessa frumvarps, þ.e. niðurstöðutölur, hefðu ekki þurft að vera svo stórar eða miklar eins og raun ber vitni, ef menn hefðu farið að þeim skynsemistillögum sem við höfum lagt fram, Miðflokksfólk, nú nokkrum sinnum.

Það er líka eftirtektarvert, herra forseti, að þessi árin eru afskrifuð gjöld í innheimtukerfi ríkisins á bilinu 18–20 milljarðar á hverju ári. Eftir mikla eftirgangsmuni fékk sá sem hér stendur svar frá fjármálaráðuneyti um ætlað tekjutap ríkissjóðs af undanskotum. Það kom reyndar í ljós, merkilegt nokk, að ráðuneytið virtist ekki hafa lagt í miklar rannsóknir á því hversu mikið af peningum væri á floti í hagkerfinu sem ekki kæmu til greiðslu skatta, en kom loks með það svar að þetta gæti verið um 80 milljarðar. Svo að allrar sanngirni sé gætt, herra forseti, þá átti þetta svar við tímann fyrir Covid. En það er allt í lagi að rifja þetta upp núna, við erum að brjótast út úr því ástandi og það hefur einmitt komið fram, herra forseti, í máli hæstv. fjármálaráðherra að ríkissjóður verði sjáanlega rekinn með halla um nokkur næstu ár á meðan hagkerfið og þjóðfélagið er að jafna sig á eftirköstum veirunnar. Það ríður á að taka til óspilltra málanna í því að vanda innheimtu. Það mun ekki fara hjá því að auka flækjustig nú þegar styrkveitingum ríkisvaldsins af ýmsum toga sleppir og fyrirtækin fara að verða sjálfbjarga og burðug. Þá þarf náttúrlega að gæta þess, án þess að það sé verið að hundelta menn eða leggja á þá klafa, að fylgjast með því að þessi umbreyting verði með þeim hætti að ríkissjóður fái það sem honum ber en þessar tölur fari ekki á flot.

Mig langar að ítreka það sem ég ræddi hér á mánudagskvöldið, að það eru hópar í þjóðfélaginu sem ríkisstjórnin virðist hafa gleymt. Ég get ekki annað en minnst á aldraða vegna þess að á sínum tíma lögðum við Miðflokksfólk til að aldraðir fengju 100.000 kr. eingreiðslu vegna Covid-ástandsins og vegna þess hvernig Covid hefur komið við þennan hóp. En þessu var í engu sinnt.

Það er frétt í einu dagblaðanna í dag, sem mér fannst dálítið merkileg, þar sem það er sérstök frétt að fjölgun lífeyrisþega komi alls ekki á óvart, segir geðþekkur hagfræðingur sem var einu sinni ráðherra á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að mér þótti þetta ekki mjög vísindalegt vegna þess að allir sem fylgjast með mannfjöldaþróun ættu að vita það að akkúrat núna á þessum árum eru að nálgast eftirlaunaaldur og komast á eftirlaunaaldur, eða lífeyrisaldur, stærstu árgangar Íslandssögunnar, ef þannig má að orði komast. Fyrir utan það að það er alkunna að við Íslendingar lifum lengur, sem betur fer. Þannig að þetta þótti mér svo sem ekki mjög vísindaleg niðurstaða en það er ágætt að þetta sé samt sett fram. Það er mjög gott.

Það er annað sem mig langar að minnast á og sem eru margsvikin loforð ríkisstjórnarinnar í garð þessa aldurshóps. Það er sem sagt áætluð fjölgun hjúkrunarrýma sem hvergi hefur staðist og það er búið að þrengja að rekstri hjúkrunarheimila og dvalarheimila fyrir aldraða virkilega mikið og nú loksins korter í kosningar kemur ríkisstjórnin fram með pínulítinn plástur á þetta svöðusár sem þarna er í rekstrinum. Þessi milljarður sem ríkisstjórnin hefur klappað sjálfri sér á bakið fyrir að koma fram með dugar væntanlega í þriðjunginn af því sem vantar til. Og það hefur líka komið fram, herra forseti, að í þessum þrengingum hafa þessar stofnanir neyðst til þess að rýra þjónustuna, að rýra þjónustu við þá sem þarna búa. Það er náttúrlega ekki sæmandi að fólk sem stendur í rekstri þurfi að gera slíkt vegna þess að það þrengir að rekstrinum, vegna þess að það er ekki rétt gefið.

Það verður einnig að taka með í þennan reikning, rétt einu sinni, að það virðist hafa komið öllum á óvart að með styttingu vinnuviku þyrftu menn meira af fjármunum til að reka áfram óbreyttan rekstur, alveg sama hvar það er, hvort það eru hjúkrunarheimili, hvort það er á Landspítalanum, hvort það er hjá lögreglunni. Og kostnaðaraukinn vegna vaktavinnufólks virðist hafa komið sérstaklega flatt upp á menn. Það hefði ekki átt að koma nokkrum einasta manni á óvart að stytting vinnuviku myndi koma allharkalega niður á vaktavinnu. Ég man eftir því að þegar ég flutti þá tölu fyrst hér inn í þennan sal um hversu marga starfsmenn þarf til að dekka eina sólarhringsvakt og miðað við 12 tíma vaktir eru það sex og hálfur maður eða sex og hálft stöðugildi, ef ég man það rétt. Þannig að um leið og við styttum vinnuviku og styttum vaktir þurfum við fleiri starfsmenn til þess að dekka hverja sólarhringsvakt. Þetta hefði ekki átt að koma nokkrum manni á óvart sem stundar samningagerð ef menn hefðu bara unnið heimavinnuna sína og reiknað út gaumgæfilega hvað það er sem þarf til að lagfæra þessa hluti. Þannig að við stöndum frammi fyrir því nú og erum búin að gera það í nokkur ár og allir hafa bent á þetta og það var m.a. bent á þetta í niðurstöðum ágætrar nefndar sem ég sat í á sínum tíma fyrir fimm árum síðan og skilaði af sér um það leyti, að það væri fyrirsjáanleg mikil fjölgun þeirra sem eru á lífeyrisaldri og kæmi til með að fjölga stórstiga núna t.d. fram til 2030, 2040. Þetta þýðir einfaldlega að það eru færri herðar sem eru að „vinna fyrir“ fleirum sem eru utan vinnumarkaðar.

Ef menn horfa aðeins víðar yfir þá má t.d. sjá að þetta mun koma tilfinnanlega niður á þjóðfélögum þar sem fjölgun er ónóg, þ.e. að fólksfjölgun helst ekki í hendur eða er ekki meiri heldur en andlát þannig að hún heldur ekki í við þau. Gott dæmi um þetta ástand er Japan. Japanir eru í kringum 130 milljónir en því er spáð að innan 50 ára verði þeir jafnvel 80 milljónir og menn segja: Það er lífsins ómögulegt fyrir 80 milljónir manna að reka þjóðfélagið sem 130 milljónir manna eru nú að reka. Þó að við séum ekki í sömu sporum þá er það samt þannig að dregið hefur úr náttúrulegri fjölgun, þannig að þessi þróun verður áberandi hér hjá okkur á næstu áratugum. Það er ekki síst þess vegna sem Miðflokkurinn hefur lagt fram öflugar tillögur t.d. um sjálfsaflafé fyrir þennan hóp. Við höfum ítrekað lagt til að aldraðir njóti þess að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Hæstv. fjármálaráðherra hefur farið hörðum orðum um tillögur okkar en ég held að það sé auðsýnilegt hverjum sem vita vill að þegar aldraður einstaklingur hefur meira á milli handanna þá eyðir hann því í bæði lífsbjörg og þjónustu þannig að þessi tekjuauki skilar sér inn í þjóðfélagið aftur með tilheyrandi veltuaukningu, með tilheyrandi skattgreiðslum eða virðisaukaskatti og fleiru. Ég held því að það sé mjög ofmetið af hæstv. fjármálaráðherra að útgjöld af þessum toga séu til þess fallin að valda einhverjum útgjaldaauka ríkissjóðs sem eitthvað munar um.

Fyrir utan það, herra forseti, að menn eiga að fá tækifæri til að vinna lengur, og ég minntist síðast í morgun á frumvarp sem ég hef lagt fram líklega fjórum sinnum um að ríkisstarfsmenn megi vinna til 73 ára aldurs kjósi þeir það og vilji þeir það og geti þeir það í staðinn fyrir að senda þetta fólk út um dyrnar í þeim mánuði sem það verður sjötugt með kollinn fullan af reynslu og þekkingu. Það hefur m.a. verið minnst á vísindamenn af mörgum gerðum, ef við getum orðað það þannig, eða í mörgum vísindagreinum, náttúruvísindum og fleiri vísindum, þar sem menn hafa unnið gott ævistarf og þegar menn verða sjötugir þá er þeim bara ýtt út um dyrnar og ekki þörf fyrir þeirra þekkingu og reynslu og framlag meir nema eins og í sumum tilfellum hefur gerst að þetta sama fólk sé ráðið sem verktakar. Og hvað gerist þá? Það rekur sig upp undir 100.000 kr. frítekjumarkið í hverjum mánuði. Þetta hef ég kallað og mun kalla og kalla enn sóun. Þetta er sóun á atgervi. Þetta er sóun á hæfileikum. Þetta er sóun á verðmætum. Þetta er líka sóun vegna þess að þeir sem vinna fram yfir sjötugt og/eða lengur, ef þeir svo kjósa, greiða að sjálfsögðu skatt eins og aðrir af þeim tekjum sem þeir vinna sér inn þannig að það er ekkert nema gott við að gera fólki kleift að vinna lengur en til sjötugs.

Þetta kemur einmitt fram í stefnu Miðflokksins sem var kynnt á landsþingi um daginn sem við berum fram undir yfirskriftinni Frá starfslokum til æviloka, þar sem við viljum að þessi ferill verði skilgreindur mjög nákvæmlega, það verði farið yfir og skýrt og treyst hlutverk hvers og eins sem þjónustar þennan stóra hóp, hvort það er ríkið eða Tryggingastofnun, sem þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar í rekstri eins og kemur fram í nýútkominni skýrslu. Það þarf að einfalda regluverkið og við höfum lagt fram tillögu um að það verði sér lagabálkur um málefni aldraðra sem núna er bæði um aldraða og öryrkja sem eiga oft og tíðum ekki margt sameiginlegt og eru ekki eitt mengi, eins og hefur verið rætt um hér í stjórnmálum ansi lengi. Það er úrelt sjónarmið að halda því fram að hægt sé að afgreiða málefni aldraðra og öryrkja undir einhverju einu formerki, bæði er hópurinn hvor um sig mjög breytilegur og innbyrðis breytilegur og þess vegna er það þannig að við viljum með þeirri stefnu sem ég minntist á áðan treysta það að þessi þjónusta og þau úrræði og þeir möguleikar sem liggja fyrir þessum hópi séu eins og keðja og hver hlekkur þeirrar keðju opnist og taki við af öðrum eftir því sem á ævina líður og eftir því sem menn þurfa öðruvísi þjónustu og hugsanlega meiri þjónustu.

Það er líka rétt að benda á það, herra forseti, ef mönnum er það ekki ljóst, að það er ekki sjúkdómur að eldast, það eru forréttindi. Og að halda fólki frísku, m.a. með því að leyfa því að vinna eins og það vill, m.a. með því að grípa til aðgerða eins og lýst er í þeirri stefnu sem ég var að fara yfir hér, um aukna hreyfingu, aukna sálfræðiþjónustu í kjölfar starfsloka þar sem hætta er á að fólk einangrist félagslega, gera sérstakar ráðstafanir til að fólk einangrist ekki félagslega og eftir því sem á ævina líður þá taki við úrræði, t.d. í búsetu þar sem greinilega vantar nýjungar. Við búum nú við það og erum búin að gera það í nokkuð mörg ár að hjúkrunarheimili eru í sjálfu sér að breytast í líknardeildir vegna þess að þegar fólk kemur inn á hjúkrunarheimili er það oft orðið mjög lasburða og þarf mikla þjónustu. Þess vegna er það enn alvarlegra að ríkisstjórnin skuli ekki hafa staðið við bakið á hjúkrunarheimilum nú þegar þjónustan þyngist og skjólstæðingum fjölgar. Þarna þarf að breyta um stefnu snarlega og ég vænti þess og vona innilega að það verði gert að afloknum kosningum í haust, að þá muni ferskir vindar blása um heilbrigðismál á Íslandi og þar með öldrunarmál þannig að hægt sé að sýna þessum þjóðfélagshópi, sem ég hef oft sagt í ræðum að sé þolinmóðasti hópur á Íslandi, lætur margt yfir sig ganga og það á ekki að misnota það. Það á ekki að misnota það traust sem þetta fólk ber til þjóðfélagsins. Það á að koma til móts við þennan hóp sem á stærstan þátt í því að við búum í því þjóðfélagi sem við búum í nú, þ.e. við það atlæti og þau lífskjör og þau tækifæri sem nú eru uppi á Íslandi. Sú staða er þessum aldurshópi að þakka og það eru snautlegar þakkir ef við stöndum ekki við að búa því fólki almennilegt atlæti. Ég tala nú ekki um ef við höldum aftur af þeim krafti sem í þeim hópi býr. Það er einfaldlega ótrúlega dapurlegt að það skuli vera uppi. Þessu þurfum við að bæta úr og eins og ég segi aftur, ef það hefði verið hlustað á eitthvað af þeim fjölmörgu tillögum sem við Miðflokksfólk höfum lagt til í fjárlagaumræðu undanfarin ár þá væri ekki þörf á svona myndarlegum fjárauka eins og hér er uppi og við hefðum ekki þurft að grípa til alls konar niðurskurðar og vandræðastefnu sem nú eru uppi.

Ég sé, herra forseti, að tími minn er því miður runninn út þó að ég eigi margt eftir ósagt þannig að ég verð að biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo að ég geti haldið áfram yfirferð minni út af þessum málum.