151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég talaði í síðustu ræðu minni nokkuð um vandann sem stafar af því að ekki hefur verið komið til móts við aldraða svo nokkru nemi af hálfu þessarar ríkisstjórnar meðan hún hefur setið og öllum er ljós sá vandi sem er í heilbrigðiskerfinu. Það er ekkert tekið á því í þessum fjáraukalögum að bæta neinu þar í. Ég var að skoða lauslega samanburð, og mun birta hann á næstu dögum, á fjölda á biðlistum eftir nokkrum algengum aðgerðum frá því í október 2017 fram til janúar 2021. Samanburðurinn er sláandi í öllum algengustu aðgerðum, þ.e. augasteinum, liðskiptaaðgerðum, hjartaaðgerðum, kransæðaaðgerðum, grindarbotnsaðgerðum, legnámi, brjóstnámi, brjóstuppbyggingu o.s.frv. Biðlistarnir hafa margfaldast og ekki er gerð nein tilraun í þessu fjáraukalagafrumvarpi til að auka fé inn í heilbrigðiskerfið. Ef við tökum augasteinaaðgerðir sem dæmi voru þær í mjög góðu horfi. Þá voru einkaaðilar úti í bæ sem stóðu eiginlega undir því og báru ábyrgð á aðgerðunum og gekk nokkuð vel. Síðan var þetta rifið inn til ríkisins eins og fleira, með þegjandi samþykki Sjálfstæðisflokksins.

Það er með hreinum ólíkindum, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er nánast eins og farþegi í þessari helreiðarrútu Vinstri grænna gegn heilbrigðiskerfinu. Og að hugsa sér að Sjálfstæðisflokkurinn horfir upp á að í fyrsta lagi eru ekki gerðar neinar aðgerðir á vegum einkaklíníka hér heldur er fólk sent úr landi í Covid-faraldrinum og þá lengist biðlistinn og ekki er talað við sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Það er búið að sauma svo að Domus Medica, sem er tæplega fimmtug stofnun, að hún mun líklega loka. Og Sjálfstæðisflokkurinn horfir á þetta án þess að hreyfa legg eða lið. Kjósendur flokksins hljóta að spyrja hver stefna flokksins í heilbrigðismálum sé eða hvort flokkurinn hafi yfirleitt stefnu í heilbrigðismálum, og lái þeim hver sem vill að menn hugsi sig um þegar vangeta flokksins til að takast á við rétttrúnaðinn í heilbrigðismálum blasir við hverjum manni.

Það er ekki bara þarna, herra forseti, sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins hljóta að vera í vafa um sinn flokk. Mig langar að auglýsa eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum. Það vill svo til að mjög nýlega var hér á landi nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem er kallaður Tony af vinum sínum. Hann staldraði hér við í nokkra daga út af fundi í Norðurskautsráði. Herra forseti. Nú verð ég að segja sögu af Gulla og Tony. Þeir áttu sem sagt fund, utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég vona satt að segja að þar hafi utanríkisráðherra Íslands gefist tími til að útskýra fyrir bandarískum starfsbróður sínum stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum. Ég vona að Gulli hafi getað útskýrt fyrir Tony af hverju Sjálfstæðismenn í íslensku ríkisstjórninni afþakka 14 milljarða íslenskra króna greidda í dollurum til að vinna að endurbótum á flugvallarsvæðinu í Keflavík. Þannig er að flugvöllurinn í Keflavík hefur ákveðna stöðu í bandarískum varnarmálum, sem heitir á illa snaraðri íslensku „flugvöllur til reiðu“, þ.e. að þegar aðstæður skapast sé flugvöllurinn tilbúinn til að taka á móti flugumferð sem helgast af breyttum aðstæðum í varnarmálum.

Ég hefði viljað vera dauð fluga á vegg, eins og konan fyrir norðan sagði, þegar Gulli útskýrði fyrir Tony stefnu Sjálfstæðisflokksins í varnarmálum og öryggismálum og útskýrði fyrir honum af hverju íslensk stjórnvöld, með Sjálfstæðisflokkinn eða utanríkisráðherra Vinstri grænna í broddi fylkingar, neita að taka við 14 milljörðum íslenskra króna til uppbyggingar á Suðurnesjum. Þetta fé var til ráðstöfunar í fyrra, ef ég man rétt, þegar atvinnuástand á Suðurnesjum var enn alvarlegra en það er nú og enn meira knýjandi að gera eitthvað í atvinnumálum. En utanríkisráðherra Vinstri grænna sagði: Nei, takk. Við tökum ekki við þessum peningum. Við erum á móti grænum peningum.

Ég segi aftur: Hvað eiga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins að halda um flokkinn sinn sem sumir hverjir hafa stutt æðilengi? Hvað eiga þeir að halda? Því að þetta er yfirlýsing, það að taka ekki á móti peningum úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins til nauðsynlegrar uppbyggingar á flugvallarsvæðinu í Keflavík, heldur segja: Nei, takk, við ætlum ekki að taka við þessum peningum. Það er yfirlýsing.

Nú ætla ég enn að minna á niðurstöðutölur í þessu frumvarpi sem við erum að fara yfir og bið fólk að átta sig á því og bið hæstv. forseta að gaumgæfa það líka hvort ekki muni um 14 milljarða í niðurstöðunum í þessu frumvarpi. Ég er næsta viss um að menn muni komast að því, og hæstv. forseti einnig ef hann flettir því upp, að það munar virkilega um þessa peningaupphæð, þessa 14 milljarða sem átti að nota við framkvæmdir sem hefðu skapað 600 störf á framkvæmdatíma, 600 störf. Og við erum núna að tala um að það taki langan tíma fyrir atvinnuleysið að fara niður í ásættanlega tölu. Það er núna í kringum 9%. En Sjálfstæðisflokkurinn sagði: Nei, takk. Við tökum ekki á móti grænum peningum frá Bandaríkjamönnum. Þessar framkvæmdir þarna suður frá hefðu skapað 50–60 framtíðarstörf, herra forseti. En Sjálfstæðisflokkurinn, utanríkisráðherra Vinstri grænna, sagði: Nei, takk. Við þurfum ekki á þessum peningum að halda, viljum ekki skapa 60 framtíðarstörf, við þurfum ekki á 600 störfum að halda til bráðrar uppbyggingar.

Það er því ekki að ástæðulausu að þessi ríkisstjórn hefur alloft verið kölluð stjórn hinna glötuðu tækifæra vegna þess að þarna var tækifæri. Þarna var tækifæri til að koma hlutunum í betra horf, fá nýja peninga inn í hagkerfið, veita 600 störf til einhvers tíma, 60 störf til frambúðar. En Sjálfstæðisflokkurinn sagði: Nei, takk. Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra hafi getað útskýrt fyrir starfsbróður sínum hvers vegna þetta var með þessum hætti, hvernig á þessu stendur. Ég vona einnig að hann geti kannski með kunningsskap sínum við Tony komið í veg fyrir að þetta verði til skaða fyrir okkur inn í framtíðina þannig að Bandaríkjamenn kippi að sér hendinni og hugsi sig tvisvar um áður en þeir bera hingað sekki af peningum fyrir ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðherra Vinstri grænna.