151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[20:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hef barist gegn þessu máli síðan það kom fyrst fram í forsætisnefnd þingsins vegna þess að ráðherrar eru skildir eftir. Þeir geta í sjálfu sér gert hvað sem þeim dettur í hug á þessum sex vikum sem eru hér settar upp sem tími fyrir kosningar. Það er kátbroslegt að í nefndaráliti meiri hlutans skuli vitnað í hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við 2. umr. þar sem hann staðfesti tilknúinn að ráðherrar í aðdraganda kosninga þyrftu að fara um víðan völl, um landið og miðin, í hlutverki sínu sem ráðherrar til að svara fyrir verk sín sem ráðherrar. Hann var þá að segja okkur að þrátt fyrir allt það sem hér er búið að setja, með bréfum frá tveimur ráðuneytisstjórum, að það eigi að skoða kjör ráðherra að þessu leyti fyrir kosningar. Ég hef sagt það áður og ætla að standa við það, að komi slíkar reglur fram þá vænti ég þess að það verði í nóvember vegna þess að það er engin von til þess að þetta verði leiðrétt fyrir þann tíma.

Ég hef margtekið það fram úr þessum ræðustól, herra forseti, að ég er aldeilis áfjáður í að það sé jafnaður munur milli þeirra sem bjóða sig fram í fyrsta sinn og þeirra sem eru sitjandi hér á þingi. Og þar sem ég er þingmaður Reykvíkinga og var áður þingmaður í Suðvesturkjördæmi þá eiga þessar akstursreglur nánast ekkert við um slíka menn. Það skiptir engu máli hvort þeir þurfa að keyra stutt eða langt, t.d. í kosningabaráttu, þeir fá ekkert endurgreitt, þannig að þetta snertir ekki þá þingmenn sem hér eru.

Það eru hins vegar þingmenn, t.d. svokallaðir heimanakstursþingmenn sem eru til að mynda í Norðvesturkjördæmi og í Suðurkjördæmi, sem hafa örugglega rekið sig á það á þessum sex vikum fyrir kosningar að þeir eigi eitthvert erindi sem þingmenn, að nærveru þeirra sem þingmanna sé óskað á einhverja fundi hér og þar eða þing eða eitthvað. Þeir eiga sem sagt að borga það sjálfir þessar síðustu sex vikur. En það kom skýrt fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér um daginn að hann leit ekki þannig á þær reglur sem verið er að setja hér nú, að þær eigi við um ráðherra í aðdraganda kosninga. Af þeirri ástæðu einni er ég jafn mikið á móti þessu máli nú og ég var þegar það var lagt fram fyrst. Mér þykir það vont að við skulum núna setja ráðherra, sem eru yfirleitt þingmenn í grunninn eins og við hinir, á einhvern þann stall að þeir hafi yfirburðastöðu miðað við okkur sem sitjum hér, þingmenn.

Það er nú svo merkilegt, af því að nú stendur til að breyta jafnvel þessum sal aðeins og tæknivæða hann, að það var eitt atriði sem kom upp í óformlegum viðræðum um daginn; að mönnum þótti það dæmi um tildur að ráðherrarnir sætu í stólum sem merktir eru með skjaldarmerki á meðan þingmenn sætu í stólum sem eru ómerktir. Menn sögðu: Ef við breytum salnum skulum við breyta þessu, við skulum breyta þessari uppi/niðri-tilfinningu sem hér er byggt undir. Þannig að eins hrifinn og ég er af því að aðstaða manna sé jöfnuð þá verður það að vera þannig að sumir séu ekki jafnari en aðrir. En með þessari afgreiðslu verða ráðherrar jafnari en aðrir, hér eftir sem hingað til.

Þess vegna, herra forseti, er ekki hægt að samþykkja þetta frumvarp.