151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[13:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég greiði þessu umbótamáli atkvæði mitt með mikilli ánægju. Það gerir vissulega ekki allan heiminn góðan, leysir ekki öll vandamál, en það er tvímælalaust framfara- og réttlætisskref að jafna leikinn hvað það snertir að þegar sitjandi þingmenn eru komnir út í kosningabaráttu séu þeir jafnsettir öðrum frambjóðendum hvað þessa hluti varðar. Ég tala nú ekki um þegar nýjar hreyfingar með enga peninga reyna að keppa við hina rótgrónu flokka. Ég hvet alla hv. þingmenn til að styðja málið. Þetta má kalla endapunkt á miklu umbótastarfi sem unnið hefur verið að þessu leyti allt kjörtímabilið, svo sem með því að skerpa á reglum um endurgreiðslu ferðakostnaðar, með því að gera allar upplýsingar um allar greiðslur til þingmanna aðgengilegar og gagnsæjar með nýjum þingsköpum og fleira mætti nefna til. Mér finnst það fagnaðarefni að við skulum á lokadegi þingsins klára þetta mál líka.