151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þetta mál er að mörgu leyti athyglisvert og það er margþætt. Í fyrsta lagi er framkoma þessa máls, þ.e. nefndarálits með frávísunartillögu frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, viljayfirlýsing núverandi stjórnarflokka til að halda áfram samstarfi eftir kosningar. Þetta mál er reyndar staðfesting á ýmsu sem fram hefur komið sem hnígur í þá átt. Það hefur t.d. verið þannig að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa tekið sér tíma þegar þau eru ekki að baka vandræði við stjórnarborðið að baka saman bollakökur til að sýna þjóðinni hvað þau séu samrýmd og hvað samstarfið gangi vel. Það er út af fyrir sig ágætt, herra forseti, og sumir myndu kalla þetta krúttlegt. En það sem er gott við þetta er það að kjósendur vita þá með nokkurri vissu hvaða valkostir eru nálægastir þegar greidd eru atkvæði þessum þremur flokkum sem standa að ríkisstjórninni, Vinstri grænum, Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Kjósendur vita þá nokkuð um hvaða stefna verður rekin hér næstu fjögur ár. Ef menn ætla að hafa í huga þá stefnu sem rekin hefur verið þessi fjögur ár þá býst ég við að renni tvær grímur á marga vegna þess að þetta kjörtímabil hefur jú einkennst af kyrrstöðu og hugmyndafátækt og skorti á framtíðarsýn.

Það má líka segja, herra forseti, að þetta nefndarálit með frávísunartillögu sé skipbrot í gjafaumbúðum, staðfesting á því að ríkisstjórnin hafi ekki treyst sér til þess að koma með málið um hálendisþjóðgarðinn inn í þingsal vitandi um alla þá ágalla sem á málinu eru.

Mig langar, herra forseti, að setja þetta mál undir eitt ljós. Á Íslandi eru rúmlega 100 friðlýst svæði og síðustu umhverfisráðherrar hafa beitt sér mjög í friðlýsingum sem er út af fyrir sig bara ágætt og gott. En málið snýst hins vegar ekki svona auðveldlega, herra forseti, vegna þess að þegar ráðherrar ríkisstjórnar, þeirrar sem nú situr, eru búnir að friðlýsa eitthvert ákveðið svæði þá gerist eitthvað skelfilegt — nefnilega ekki neitt. Friðlýsingunum hefur ekki fylgt nægjanlegt fjármagn, hvorki til þess að vernda svæðin, stýra aðgangi inn á þau né bæta við landvörslu o.s.frv. Síðan er annað, að hæstv. umhverfisráðherra virðist ekki vita hvað felst í friðlýsingu á sumum svæðum. Hann virðist ekki vita hvað er að gerast á sumum friðlýstum svæðum. Mig langar til að rifja það upp, herra forseti, að mjög nýlega spurði ég hæstv. umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma um þær reglur sem giltu á Hornströndum í friðlandinu þar, sem er, með virðingu fyrir mörgum öðrum svæðum og flestum, eitt stórbrotnasta en jafnframt eitt viðkvæmasta friðaða svæðið á Íslandi. Ástæða þess að ég spurði hæstv. ráðherra var sú að þyrluflugmaður sem hafði flogið með fólk inn í friðlandið á þyrlu, sem á ekki að vera leyfilegt, var sýknaður fyrir dómi. Ég spurði hæstv. ráðherra að því um daginn hvaða áhrif þessi dómur hefði. Hann vissi það ekki. Ég spurði hann um reglurnar. Það var talið í dómsorðinu að auglýsingin um friðlýsingu og umgengni við þetta friðland hefði ekki verið birt á réttan hátt. Þá spurði ég hann líka hvað ætti að gera nú í sumar vegna þess að góðu heilli eru ferðamenn farnir að sjást á Íslandi aftur. En það stefnir allt í það að móttaka þeirra verði með jafn ómarkvissum hætti og var hér meðan ferðamannastraumur til Íslands var eins og vertíð þar sem allir ætluðu bara að maka krókinn á sem skemmstum tíma, skítt með þjónustuna og skítt með orðsporið. Það er margt sem bendir til þess að þessi hugsunarháttur sé enn uppi, m.a. vegna þess að nú á að fara að hringsigla landið á litlum skemmtiferðaskipum og þar hafa menn verið að setja fólk í land á Hornströndum á gúmmíbátum, allt upp í 50 manns í einu, inn í mitt friðlandið og það er enginn á vettvangi til að fylgjast með af hálfu yfirvalda.

Herra forseti. Meðan við getum ekki sinnt þeim landsvæðum sem þegar eru friðlýst, sem við viljum þegar vernda, skammlaust, af hverju ættum við þá að taka einn þriðja hluta Íslands og breyta því í ríkisstofnun? Af hverju?

Það er annað, herra forseti, sem ég vil draga fram í þessu samhengi. Mig minnir að það hafi verið 1996 sem Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Ég held að ég sé að fara með rétt ártal. Þegar Vatnajökulsþjóðgarður var settur á laggirnar þá fylgdi þeirri stofnun mjög metnaðarfull áætlun um uppbyggingu í þjóðgarðinum. Í stuttu máli þá varð hún ekki að veruleika vegna þess að þessum hátimbruðu áformum sem voru sett fram, mjög glæsileg, í þessari skýrslu eða hefti sem var búið til á sínum tíma þegar garðurinn var stofnaður eða í burðarliðnum, fylgdi ekki fjármagn. Hvað þýddi það? Það þýddi að Vatnajökulsþjóðgarður var vanfjármagnaður og hefur verið það langleiðina fram á þennan dag. Það er t.d. núna verið að vinna við gestastofu á Kirkjubæjarklaustri, sem er einn af útvörðum garðsins, löngu, löngu seinna en áætlað hafði verið upphaflega. Menn geta alveg skellt skuldinni á hrunið, alveg eins og menn skella skuldinni af þessari brotlendingu sem hér er lýst á Covid. Auðvitað geta menn alveg gert það ef þeir vilja það. En það er ekki trúverðugt, herra forseti.

Og hvað hefur einnig komið í ljós varðandi Vatnajökulsþjóðgarð? Jú, Ríkisendurskoðun fann að stjórnskipulagi garðsins og taldi það ekki skilvirkt. Hvað var gert í upphaflegu frumvarpi til laga um hálendisþjóðgarð? Það var lagt til, herra forseti, u.þ.b. sams konar stjórnskipulag og Ríkisendurskoðun hafði í sjálfu sér bara dæmt úr leik í Vatnajökulsþjóðgarði. Þannig að undirbúningurinn að þessu máli hér, að stofnun hálendisþjóðgarðs, virðist vera eða hafa verið í sama skötulíkinu og þegar Vatnajökulsþjóðgarður var settur á fót. Kannski ætti maður þess vegna að vera ánægður yfir því að ríkisstjórnin skuli brotlenda með þessum hætti með þetta mál og hyggist gefa sér tíma til að gaumgæfa málið áfram.

Það er búið að guma mikið af meintu samráði í þessu máli og þeir aðilar sem ég hef heyrt í og hitt og haft samband við og hafa haft samband við mig alls staðar að, þeir sem lönd eiga eða jarðnæði að þessum garði eða eiga hagsmuna að gæta, sveitarfélög, félagasamtök, hafna því alfarið að þetta samráð hafi verið jafn yfirgripsmikið og jafn frábært og af er látið og hæstv. umhverfisráðherra lætur. Það kann ekki góðri lukku að stýra, herra forseti, þegar svona ákvörðun er tekin. Hún er risastór. Hún hefur áhrif á mjög marga. Hún hefur áhrif á það hvernig við ferðumst um landið. Hún hefur áhrif á það hverjir geta ferðast um landið. Það hefur t.d. ekkert legið ljóst fyrir, hvorki hér í þessum áformum og að litlu leyti í þeim þjóðgörðum sem við höfum sett á fót, hvernig eigi að tryggja að aðgengi fatlaðra í görðunum sé eins og það ætti að vera. Auðvitað skilur maður, í jafn stórri skipulagsheild og Vatnajökulsþjóðgarður er og jafn víðfeðmri, að það taki tíma og það sé nokkrum erfiðleikum háð að tryggja gott aðgengi fyrir fatlaða á svo stóru svæði. Einmitt þess vegna, herra forseti, hefðu menn kannski átt að staldra við undanfarin ár, þurrka framan úr sér svitann eftir og á meðan á uppbyggingu stendur í Vatnajökulsþjóðgarði og vera þá almennilega búnir til þess að geta tekist á við verkefni á stærð við hálendisþjóðgarð.

Ég verð að segja, herra forseti, og það hefur komið fram í máli mínu, að ég hef efasemdir um þessa framkvæmd. Ég hef efasemdir um að breyta einum þriðja landsins í ríkisstofnun. Ég hef efasemdir um það að hafna fyrir fram öllum tækifærum til orkuöflunar sem er að finna á þessu svæði og í námunda við það. Menn hafa, herra forseti, fundið upp orð sem heitir helgunarsvæði. Það vill þýða það að ekki einungis séu friðlýst svæði og þjóðgarðar án þess að þar sé orkuöflun heldur einnig einhver ótilgreind svæði utan við friðlýsta svæðið sem heitir helgunarsvæði. Ég man ekki betur en að ég hafi komist á snoðir um það að þegar Landsvirkjun vildi t.d. bæta í fjölda vindmyllnanna sem þeir eru með uppi á Hakinu í Þjórsárdal hafi menn orðið alveg æfir vegna þess að það væri af því sjónmengun, vissulega, en ekki inni í þjóðgarði, ekki inni í friðlandinu sem er þarna að baki, heldur á leiðinni þangað. Mönnum fannst þetta alveg svakalegt.

Ég segi aftur: Ég held að menn þurfi og ráðamenn þurfi að gera upp við sig nákvæmlega hvað það er sem þeir vilja gera, leggja það á borðið því það hefur ekki verið alveg ljóst, það fara ekki saman orð og það sem blasir við fólki. Að því leyti til er þessi brotlending ríkisstjórnarinnar með þetta mál góð, að menn fái ráðrúm til að hugsa sig um, en frávísunartillagan, sem fylgir þessu nefndaráliti, gerir ekki ráð fyrir því að menn ætli neitt að staldra við eða læra neitt eða haga hlutum öðruvísi eða læra af reynslunni eða neitt svoleiðis. Nei, hæstv. umhverfisráðherra á að koma fram með nýtt frumvarp, bara alveg um hæl, bara á næsta þingi eða eitthvað slíkt. Og þessi örlitli grenjandi minni hluti virðist samkvæmt könnunum vera meiri hluti þeirra sem hafa efasemdir um þennan hálendisþjóðgarð, það fjölgar í hópnum, þessum örlitla grenjandi minnihlutahópi. Kannanir sýna að áhugi manna og fylgi við það að leggja einn þriðja landsins undir þjóðgarð hefur dvínað. Ég vænti þess, herra forseti, að hann hafi dvínað um leið og byrjað var að ræða þetta mál öfgalaust, um leið og byrjað var að ræða þetta mál á grundvelli upplýsinga sem hægt er að staðreyna og að lokinni kynningu þar sem hæstv. ráðherra fór hringinn um landið og kvaddi menn oft með þeim orðum að hann væri bara einfaldlega ekki sammála þeim. Þar með lauk samráðinu og samræðunum og uppbyggilega viðtalinu.

Áform eins og þessi, herra forseti, ber síst að þvinga í gegn með átökum og í ágreiningi áður en við tökum þá ákvörðun að friðlýsa einn þriðja landsins. Og nota bene — herra forseti, ég veit að þingmálið er íslenska og að dagur íslenskrar tungu er hér á hverjum degi — þá er það algjör nauðsyn að ná um svona stóra áætlun almennu samkomulagi. Það þýðir ekki að fara um landið og segjast vera ósammála þeim sem ekki sjá ljósið í fyrstu atrennu. Þannig gengur samvinna og samráð ekki fyrir sig, herra forseti. Þess vegna væri náttúrlega best að leggja þessi áform á hilluna um skeið á meðan menn myndu endurskoða áformin og leggja fram raunveruleg áform sem geta staðist þær væntingar sem við höfum, miðað við það fjármagn sem við höfum o.s.frv.

Herra forseti. Ég virðist vera búinn með tíma minn og þarf því að biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá því að ég er rétt að byrja.