152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef nú fengið svar við fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra um meðhöndlun endómetríósu eða legslímuflakks og þakka fyrir svarið. Í svarinu er staðfest það sem ég hafði fengið veður af, sem er að biðtími eftir viðtali og meðhöndlun sjúkdómsins á Landspítalanum er allt of langur. Hins vegar gefur svarið tilefni til bjartsýni. Hæstv. heilbrigðisráðherra upplýsir um að hann vinni nú að styttingu biðtíma innan alls heilbrigðiskerfisins og að hann hafi beint sjónum sérstaklega að endómetríósu, bæði varðandi biðtíma og varðandi bætta þjónustu við sjúklinga. Þetta eru góðar fréttir fyrir stóran hóp sjúklinga sem hefur liðið bæði líkamlegar og andlegar kvalir. Verkefnin í heilbrigðiskerfinu eru næg og mig langar hér að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða í pólitískri forystu um að setja sjúklinga og þeirra þarfir í forgrunn en láta ekki gamaldags kreddur byrgja sér sýn. Það hlýtur að ríkja algjör samstaða um það að við gerum Landspítalanum kleift að sinna sínu hlutverki. Það er mikilvægt að hlusta á allar raddir innan heilbrigðisstéttanna og Landspítalans í þessu máli en líka í öðrum áberandi málum um þessar mundir.