Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þarna liggja áhyggjur mínar í dag. Við sáum til að mynda í fyrra að útgjöld ríkissjóðs bara vegna verðbólgu og þrýstings, annars vegar launaþrýstings en hins vegar af verðbólgu á verðbótum af lánum, voru hátt í 15 milljarðar. Ég nefni þær tölur í þessu samhengi af því að fólk er að tala um einhverja raunaukningu útgjalda eins og það sé til marks um þenslu í hagkerfinu. Hagvöxtur á ári hverju undir eðlilegum kringumstæðum er 2,5–3%. Við erum að tala um 0,7%. 10 milljarðar ef við ætlum að laga stöðuna í málaflokki fatlaðs fólks. 15 milljarðar fóru óvart í verðbætur í fyrra.

Mig langar að beina þeirri almennu spurningu til hv. þingmanns hvort hann geti tekið undir með mér í greiningu á þeirri þróun sem hefur orðið í ríkismálum, eða málefnum ríkisstjórnar og í pólitíkinni undanfarinn áratug, að búið sé að rjúfa ákveðna samstöðu þegar kemur að vinnumarkaðnum. Í hefðbundnum norrænum velferðarkerfum þar sem verið er að hugsa um heilbrigða hagstjórn, koma í veg fyrir spíral launahækkana og húsnæðishækkana, er unnið að markvissri húsnæðisstefnu til að draga úr þrýstingi. Þar er gripið inn í þegar sést að hlutirnir eru að fara miður, eins og er til að mynda að gerast í dag. En það hefur ekkert heyrst frá ríkisstjórninni í þessum málaflokki, reyndar virðist einn stjórnmálaflokkur í ríkisstjórninni vera sammála stjórnarandstöðunni. Er ekki búið að rjúfa tengslin milli vinnumarkaðar og ríkis þegar það eina sem við heyrum er: Við ætlum ekki að koma að þessu, þetta kemur okkur ekki við? Þegar það liggur fyrir að ríkið mun fá þetta í fangið í haust í formi launahækkana og fjármálastefnan verður sprungin fyrir lok þessa árs?