Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þarna höfum við hitt á kjarna máls, að við þurfum á hverjum tíma að nýta hagvaxtarskeiðið til að búa ríkissjóð undir óvænt áföll því að óvænt áföll, kreppur, munu alltaf skella á okkur með einhverjum hætti. Ég held að þetta sé grundvallarþáttur í því að hv. þingmaður hóf framsögu sína áðan á því að vera mjög svartsýnn en varð síðan mjög bjartsýnn á að okkur myndi ganga vel næstu áramót. Öll teikn eru um það, alla vega til þessa dags í dag, að það sé raunverulega meiri vöxtur en við erum að greina í þeim áætlunum sem við höfum hérna til grundvallar þessari stefnu. Það sé meiri þróttur í efnahagslífinu heldur en við höfum kannski verið er að vinna með hingað til.

Þess vegna vil ég aftur taka utan um þá umræðu að helsti vandi okkar er að auka útgjöld til málaflokka sem er erfitt að taka á þegar kreppir að aftur í brjáluðum hagvexti, að við séum að auka varanlega útgjöld í brjáluðum hagvexti. Ég hef minni áhyggjur af fjárfestingum í þeim efnum. Það stendur ekki til að nota velferðarkerfin til hagstjórnar. Við höfum varið velferðarkerfin og aukið í velferðarkerfin á undanförnum árum. Þess vegna ætlum við að stækka út úr þessari kreppu og ég held að það sé ágætt útliti til þess.

Síðan nefnir hv. þingmaður húsnæðismarkaðurinn og það að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni sem er allt önnur umræða sem ég ætla ekki að taka þátt í hér. Af hverju er ég oft að ræða um húsnæðisþáttinn í andsvörum? Vegna þess að hann virðist vera aðaleldsneytið á verðbólgubálið í dag. Þá verðum við að þora að horfa til þeirra þátta sem valda þar óstöðugleikanum. Það er ekki skortur á framlögum hins opinbera á undanförnum árum til húsnæðismála. Meira að segja er veruleikinn sá að þau framlög hafa ekki öll gengið út, kannski vantar upp á lóðir eða slíka ýmsa þætti sem þurfa að vera til staðar. (EÁ: Nei.) Ég er með orðið hv. þingmaður.(Forseti hringir.) Þetta er einfaldlega staðreyndin.

Virðulegi forseti. Það sem ég skil eftir í seinni innkomu minni hér er að við eigum að varast það að láta útgjöldin fylgja hagvexti á hverjum tíma.