Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nefndarálit 3. minni hluta fjárlaganefndar hefst með þessum orðum:

Nostradamus var ekkert merkilegri en ég.

Ég get ráðið framtíðina alveg eins og hann.

Komandi tíð mun verða hörð en bærileg.

Frétti það á spjalli við löngu látinn mann.

Þetta eru tvímælalaust bestu setningarnar í nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar en auðvitað er það ekki svo að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson eigi þennan fallega texta heldur er það hin merka hljómsveit Nýdönsk.

Þegar ég hóf lestur á þessu nefndaráliti þá hugsaði ég: Jæja, nú bíður eitthvað skemmtilegt og spennandi. Ég sá fjöldann allan af töflum og hugsaði: Jæja, loksins, loksins. Þá veit ég núna hvernig einhverjum í minni hlutanum finnst að fjármálastefna ætti raunverulega að líta út því að við skulum muna að fjármálastefnan er í grunninn ekki mjög löng. Hún er þessi tafla og það er auðvitað greinargerð með henni og hún er mun ítarlegri. En ég er alltaf að bíða eftir því, þegar ég heyri gagnrýni á fjármálastefnuna, og það er kannski spurning mín til hv. þingmanns: Hvaða afkomutölur myndi hv. þingmaður vilja sjá hér? Hvers konar ramma vill hv. þingmaður setja fyrir opinber fjármál fyrir næstu ár? Ég verð að viðurkenna að ef það er eitthvað sem hræðir mig varðandi þessa fjármálastefnu þá er það einmitt frekar í hversu langan tíma við ætlum að keyra ríkissjóð á neikvæðri afkomu og það að við ætlum ekki að hætta skuldasöfnun fyrr en árið 2026. Spurning mín til hv. þingmanns er: Hvar er taflan hans? Hvar er áætlun hans eða sýn Pírata á það hvernig fjármálastefna ríkisins ætti að líta út?