Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:07]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að spyrja hv. formann fjárlaganefndar tveggja spurninga. Annars vegar langar mig að vita hvers vegna ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur þessa ofboðslegu áherslu á að draga úr umfangi ríkisins og hins opinbera í hagkerfinu á komandi árum, bæði á útgjaldahliðinni og tekjuhliðinni. Hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð einhverja óbeit á samneyslu og opinberri þjónustu? Er það þannig?

Hin spurningin er þessi: Telur hv. þingmaður ástæðu til að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar verði kannski tekinn upp og endurskoðaður til samræmis við það sögulega útgjaldaaðhald sem birtist í þessari fjármálastefnu og til samræmis við það lága opinbera fjárfestingarstig sem gert er ráð fyrir í þessari fjármálastefnu? Væri það kannski hreinlegast gagnvart fólki sem kaus þessa stjórnmálaflokka, las jafnvel stjórnarsáttmálann og hélt að það væri eitthvað að marka orðin sem þar eru sett á blað?