Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja að mér finnst þetta dálítið djúpt í árinni tekið. Ég ætla að leyfa mér að segja að mér finnst tal um það að Vinstri græn hafi óbeit á samneyslu ósmekklegt. Ég ætla bara að segja það hér. Við erum ekki að leggja áherslu á að umfang ríkisins, útgjalda- og tekjuhlið, verði margfalt minna en verið hefur. Við höfum stækkað — og heyrum það reglulega í þingsal og það veit hv. þingmaður, að okkur er brigslað um það, af Sjálfstæðisflokknum sérstaklega, að stækka báknið. Ég tel að það svari sér dálítið sjálft þegar hv. þingmaður horfir til baka á það sem gerðist á síðasta kjörtímabili þar sem, fyrir utan fjármuni sem farið hafa í ráðstafanir vegna Covid, búið er að leggja gríðarlega aukna fjármuni í allt innviðakerfið okkar, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, tilfærslukerfið. Ég get ekki tekið undir það að við séum að leggja til að allt þetta verði í einhverju sögulegu lágmarki.