Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:55]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það gefur auðvitað augaleið að ef tilfærslukerfin eru stöðug og fólk getur gengið að hlutunum vísum þá skapast eitthvert það umhverfi sem hægt er að vinna með. Það hefur lengi loðað við þetta samfélag okkar að hér eru allir tekjutengdir í bak og fyrir og bara í þessari þenslu á fasteignamarkaði er fólk að tapa vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi af því að eignastaða þeirra jókst þrátt fyrir að ekkert annað hafi breyst, það er með sömu laun og meira að segja afborgunin af láninu hækkaði af því að verðbólgan jókst. Þetta er auðvitað forsendan fyrir því að við búum til eitthvað sem heitir norrænt samningalíkan sem við ætlum að byggja á til framtíðar, að við höfum þennan stöðuga grunn sem fólk getur treyst á. Annars verður þetta alltaf eins og frumskógur hér, höfrungahlaup, og það kom alltaf einhverjir illa út úr því.