Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[21:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Hér hefur áhugaverð umræða átt hefur sér stað um fjármálastefnuna. Ég fór að rifja það upp, þegar þingmenn voru hér að kasta því sín á milli hvað væri í stefnunni og hvað ekki, og hvað ætti að vera þar og hvað ekki, að við erum hér að vinna samkvæmt lögum um opinber fjármál sem tóku gildi, ef ég man rétt, 2015. Ég kem hingað inn á þing 2016 og er þá í fjárlaganefnd og við förum að vinna samkvæmt þeirri stefnu, vorum að fóta okkur í því, annars vegar með stefnuna sem er lögð fram af nýrri ríkisstjórn til fimm ára og síðan fjármálaáætlun sem er lögð fram árlega innan ramma þeirrar stefnu. Nú, á því herrans ári 2022, erum við í þeim veruleika að við höfum ekki farið í gegnum heilt tímabil. Það hafa orðið hér ýmis áföll, sum algerlega séríslensk, eins og fall WOW haustið 2019, og síðan ekki svo mjög séríslenskt fyrirbæri sem var kórónuveirufaraldurinn sem hafði líka áhrif. (Gripið fram í.)— Já, svo það aukaatriði þarna á milli, sem ég var búin að gleyma, rétt hv. þingmaður. Við erum því ekki enn komin á þann stað, að ég held, að ná að nýta okkur það ágæta tól sem felst í þessu. Það breytir því ekki að umræðan er áhugaverð og kannski er það bara akkúrat svona sem þetta þarf að vera, ekki fall WOW og ekki kórónuveirufaraldurinn en þessi gerjun í því hvernig við nýtum okkur þessi lög. Þetta var heljarinnar breyting, var og er.

Ég sit ekki í fjárlaganefnd og þekki því ekki þá umræðu og vinnu sem hefur átt sér stað þar við vinnslu á þessu plaggi. En ég hef fylgst vel með umræðunni í dag og langaði eiginlega að koma hér upp og leggja einhverja punkta á borðið sem tengjast þeim verkefnum sem við erum að fást við, pólitískt litaða punkta. Ég beini sjónum aðeins að hallarekstrinum og skuldasöfnuninni sem hefur mjög eðlilega verið hér til umræðu. Gert er ráð fyrir því í þessari fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að skuldir ríkissjóðs aukist hratt og muni halda áfram að gera það til ársins 2026. Það er mikilvægt í umræðunni hér að halda því til haga að ríkissjóður var í járnum áður en heimsfaraldurinn skall á. Fyrir því voru ákveðnar ástæður, ákveðin áföll sem höfðu orðið, og síðan var ekki gengið mjög hægt um gleðinnar dyr þegar kom að ríkisútgjöldum, ég ætla bara að leyfa mér að segja það. Undirliggjandi afkomuhalli var orðinn 2,2% strax á árinu 2019 og auðvitað var það til þess fallið að draga úr svigrúmi ríkisins til að bregðast við þegar efnahagsleg niðursveifla kemur. Afkoman hefur því í raun farið versnandi frá árinu 2019 þó svo að við lítum fram hjá beinum útgjöldum, beinum og óbeinum, sem tengd eru faraldrinum. Síðan hafa allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar byggst á aukinni lántöku. Það er alveg rétt, sem komið hefur fram í umræðunni, að lántökur tengdar viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum áttu sér mikinn stuðning hér í þingsal. Það var fátt um fína drætti og þetta voru bara hlutir sem þurfti að gera. Það lá á að bregðast hratt og vel við stöðunni og það hefur á margan hátt tekist vel. En það kemur auðvitað að skuldadögum. Þegar þannig stendur á að við erum að nota lántökur til að fjármagna viðvarandi hallarekstur er náttúrlega verið að ógna sjálfbærni ríkisfjármála. Þó að skuldahlutfallið sé enn nokkuð hóflegt, miðað við sum viðmiðunarlönd okkar a.m.k., þá er það staðreynd að vaxtabyrðin hér er mun þyngri en í löndunum í kringum okkur og staðreyndin er sú að vaxtagjöld eru nú orðin fimmti stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Það er ekkert sérstaklega þægileg mynd að horfa á, það verður að segjast eins og er. Við eigum vissulega langt í land með að ná því sem var verst í kjölfar fjármálahrunsins og ég ætla rétt að vona að við náum því aldrei aftur. Ég fæ hroll við tilhugsunina um þá mynd sem þar blasti við. En fimmti stærsti útgjaldaliðurinn, að það fari í vaxtagjöld, er býsna stór biti og fámenn þjóð með litla mynt á einfaldlega erfitt með að lifa við þá stöðu til lengri tíma.

Skuldir hins opinbera, samkvæmt gögnum, munu aukast um 70% frá árinu 2019 til 2026 og síðan gerir sviðsmyndin ráð fyrir enn frekari skuldaaukningu að óbreyttu tekjufyrirkomulagi. Auðvitað er þetta til þess fallið að skerða svigrúm og getu hins opinbera til að standa undir þeirri grunnþjónustu sem við erum öll sammála um að þurfi að vera til staðar, og ef eitthvað er eykst eftirspurnin eftir slíkri þjónustu frá ári til árs. En það stendur ekki til að stöðva skuldasöfnunina eins fljótt og hægt er, það er stefnan. Skuldalækkun á samkvæmt fjármálastefnunni að hefjast eftir að stefnan rennur úr gildi og eftir að kjörtímabili sitjandi ríkisstjórnar lýkur. Það er eitt og sér ekki gagnrýnisvert. Við höfum farið yfir það hér að því fylgir líka kostnaður fyrir komandi kynslóðir þegar farið er svo bratt í að greiða upp skuldir að það er gert á kostnað innviðauppbyggingar eða einhverrar sýnar. Það er jafn íþyngjandi fyrir komandi kynslóðir að slíkt gat eigi sér stað í innviðafjárfestingu, jafn íþyngjandi og skuldasöfnunin sem slík eða skuldirnar sem slíkar. Það skiptir t.d. máli hvort skuldasöfnunin er nýtt í arðbærar fjárfestingar eða hvort við erum á það slæmum stað að við erum að nýta hana til að fjármagna þjónustu, eitthvað sem í öðrum rekstri heitir að fjármagna neyslu. Þá erum við raunverulega orðin verulega ósjálfbær.

Það breytir því kannski ekki að þrátt fyrir að um það ríki, held ég að telja megi, ágæt samstaða að ekki sé skynsamlegt og ekki í þágu almennings að fara bratt í skuldalækkunina, jafn bratt t.d. og áður hefur þekkst, þá er fátt um fína drætti þegar kemur að tillögum um hvernig eigi að uppfylla það markmið, þó svo að það sé eftir 2026, eftir þetta kjörtímabil, eftir að starfstíma þessarar ríkisstjórnar lýkur. Boltanum er einhvern veginn öllum ýtt áfram nema að því leyti að það ríkir bjartsýni um hagvöxt án þess að lagðar séu línur um það hvernig sú bjartsýni raungerist. Það má því segja að allar áætlanir þessarar stefnu treysti á mjög kröftugan hagvöxt. Það liggur fyrir að án hans er fyrirséð að það muni þurfa að grípa til verulegra skattahækkana eða jafnvel líka verulegs niðurskurðar. Hagvöxturinn er gríðarlega nauðsynlegur þegar við erum með þessa stefnu um að anda inn í skuldaaukninguna.

Við höfum upplifað það áður að gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu hafi næstum því komið sem happdrættisvinningur. Það er mögulegt að það gerist aftur, að ferðaþjónustan fari á flug af meiri hraða en við gerum ráð fyrir en þó virðist stefnan treysta á að það gerist býsna hratt. Þá koma inn í breytur eins og raungengi krónunnar sem er mun hærra nú en þegar uppgangur ferðaþjónustunnar hófst. Við búum líka við það að á sama tímabili hefur launakostnaður aukist töluvert og auðvitað hefur það áhrif á möguleika atvinnugreinarinnar til enduruppbyggingar þannig að það er eitthvað sem þarf að huga að. Ef hagvaxtarspár sem fjármálastefnan byggir á eiga að geta gengið eftir þarf að tryggja að frjór jarðvegur sé fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Við þurfum regluverk sem styður við atvinnulífið en á það ekki til að standa í vegi fyrir því. Á þetta hefur OECD bent okkur. Þar mættum við vera með skýrari sýn og hlutirnir mættu gerast svolítið hraðar, þ.e. að ramminn í kringum atvinnulífið fylgi svolítið þeirri öru uppbyggingu sem við erum að vonast til að eigi sér stað þar.

Ég stend svo ekki hér og ræði þessi mál án þess að nefna mikilvægi þess að við höfum stöðugan gjaldmiðil og hagstæðara vaxtaumhverfi en við búum við. Við höfum alltaf þurft að berjast við þetta. Við erum í samkeppni við aðrar þjóðir. Við erum í samkeppni um starfsfólk, um viðskiptavini, um fyrirtækjarekstur og við búum við allt annað og óhentugra vaxtaumhverfi en þær þjóðir sem við eigum í samkeppni við. Við eigum líka í samkeppni við þessar þjóðir um lífskjör og hreinlega um það að skapa eftirsóknarvert rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki og eftirsóknarvert umhverfi fyrir heimili að blómstra í. Við í Viðreisn höldum áfram að benda á það að sveiflukenndur gjaldmiðill er það sem helst stendur í vegi fyrir aðgengi fyrirtækja, ekki síst nýsköpunarfyrirtækja, að erlendri fjárfestingu og vaxtaumhverfi sem fylgir krónunni gerir þeim enn erfiðara um vik. Aðild að Evrópusambandinu og evran myndi auka verulega líkur á því að hagvaxtarspá fjármálastefnunnar gangi eftir og íslenskur almenningur muni ekki þurfa að þola verulegar skattahækkanir og niðurskurð á komandi árum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er ástæða fyrir því að þetta er ekki nefnt í fjármálastefnunni en þó er mikilvægt, þegar við erum að ræða vænlegar leiðir til að ná settu marki um lífskjör almennings og um rekstrarskilyrði fyrirtækja, að við ræðum þessa hluti jafnhliða, að þetta sé uppi á borðinu líka þannig að við vitum hvað við erum að tala um. Ég veit satt best að segja ekki til hvers fjármálastefna og fjármálastefnuumræða er ætluð ef ekki til að taka þessa hluti með í reikninginn.

Þegar kemur að stjórn efnahagsmála langar mig aðeins að nefna það sem ég sá í umsögn ASÍ um fjármálastefnuna, hörð varnaðarorð Seðlabanka Íslands sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Eftir því sem efnahagsumsvif rétta úr kútnum í kjölfar farsóttarinnar og slakinn í þjóðarbúinu snýst í spennu telur Seðlabankinn brýna þörf á að undið verði ofan af örvunaraðgerðum síðustu ára með sem allra mestri aðhaldssemi í ríkisfjármálum og að ekki verði vikið frá markmiðinu um stöðvun skuldaaukningarinnar svo að jafnvægi náist sem fyrst.“

Seðlabankinn brýnir fyrir stjórnvöldum að hafa þessa hluti í huga og ég er svo sem búin að eyða lunganum af ræðunni í að ræða það að það var ákveðið, það er pólitísk ákvörðun sem nokkuð góð samstaða var um, að stíga hægar niður en það þarf þá að hafa í huga hvaða áhrif það getur haft að halda þessari stefnu áfram þegar fer að birta yfir. Þensluaukandi aðgerðir við slíkar aðstæður geta haft áhrif til aukningar á verðbólgu og það verður enn erfiðara að vinda ofan af hlutunum. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, og ég geri svo sem ráð fyrir því að fjármálaáætlun muni gera það, að taka enn sterkar á þessu. Við fáum að sjá hana í næsta eða þarnæsta mánuði. Það eru fleiri smáatriði þar. Þetta er bara hlutur sem þarf að hafa í huga. Við búum við þetta gríðarlega sveiflukennda efnahagsumhverfi þannig að skrefin þurfa að vera mjög varkár og það þarf að vera hægt að stíga á bremsurnar þegar lítur út fyrir að við séum að missa tökin. Það er eitt að fara rólega í uppgreiðslu skulda og annað að missa tökin með tilheyrandi verðbólgubáli og þenslu í hagkerfinu.

Mig langaði kannski aðeins að nefna tekjuhliðina af því að við höfum rætt mikið um skuldahliðina. Við erum að ræða um að hér þurfi að ýta undir og það hefur komið fram í umræðunni, m.a. hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, sem ræddi um að nýsköpun væri orðin fjórða stoðin í efnahagslífinu. Það er vel að við skulum sjá fram á vöxt þar. Næsta skref er að búa svo um hnútana að þau frjóu korn sem sáð er hér á landi endi ekki sem blómleg tré utan landsteinanna heldur þrífist þau hér á landi og byggi undir öflugt atvinnulíf hér á landi. Ég hef rætt mikilvægi vaxta og stöðugs gjaldmiðils í því tilfelli. Það er annar þáttur sem tengist tekjuöflun ríkissjóðs og það er auðlindastefnan okkar. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum á því að halda að hér, í okkar auðlindadrifna hagkerfi, séum við með mjög skýra auðlindastefnu þar sem kveðið er á um það í eitt skipti fyrir öll hverjar tekjur íslenskrar þjóðar eigi að vera fyrir þær auðlindir og hún þarf væntanlega að vera flæðandi í þeim skilningi að ég er þess fullviss að við eigum náttúruauðlindir sem við höfum ekki hugmynd um í dag að geti orðið tekjuaflandi fyrir ríkissjóð. En síðan eigum við þær auðlindir sem við bítumst um nær daglega, t.d. sjávarútvegsauðlindina, en þær eru fleiri. Ég held að það sé bara orðið mjög mikilvægt að við förum vel í gegnum þessa hluti og reynum að ná hér samstöðu. Ég segi fyrir mína parta, talandi um skattlagningu, að ég myndi vilja sjá, ég og minn flokkur, aðrar leiðir t.d. í sjávarútveginum. Við viljum sjá markaðsleiðina nýtta þar til að mynda um verð en ég hef ekki tíma til að fara yfir það hér núna. En ef um er að ræða skatt, ef við erum á annað borð að tala um skatt eða gjöld til tekjuöflunar, þá er ég miklu hrifnari af því að íslensk þjóð, ríkissjóður, fái tekjur af því að leggja skatt á þær eignir sem íslenskur almenningur, íslensk þjóð, raunverulega á en að leggja skatt á tekjur einhverra annarra eins og að hækka tekjuskatt upp úr öllu valdi eða hvaða skatt sem er. Ég vil miklu frekar sjá þessa leið á undan þannig að þetta er mikilvægt innlegg í umræðuna um styrkari tekjugrunn fyrir ríkissjóð sem þessi stefna snýst meðal annars um.

Það hefur töluvert mikið verið rætt um stöðu sveitarfélaga. Ég sé að ég er að renna út á tíma, svona fljótlega, ég er að reyna að velja og hafna, hvað það er sem mig langar mest að nýta tímann í að ræða. Sveitarfélögin hafa verið rædd töluvert og það gefur augaleið að þar þarf að fara vel yfir málin og það hefur komið skýrt fram hér, ekki síst í máli þeirra þingmanna sem hafa reynslu og þekkingu af starfi úr sveitarstjórnum. Mig langaði aðeins að nefna þá staðreynd, og aftur gríp ég niður í umsagnir sem ég skoðaði, að það var töluvert um þá gagnrýni að þessi fjármálastefna skapaði ekki grundvöll fyrir félagslegan stöðugleika og stöðugleika á vinnumarkaði og ef við ætluðum að halda núverandi velferðarstigi myndi óbreytt fyrirkomulag útgjalda og tekjuöflunar leiða til þess að afkoma hins opinbera yrði verulega neikvæð. Í skýrslu fjármálaráðuneytisins er talað um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum, að frumútgjöld muni vaxa um 1,5% af vergri landsframleiðslu frá 2027–2050, m.a. vegna stóraukinna útgjalda til heilbrigðismála vegna öldrunar þjóðarinnar á sama tíma og vinnandi höndum fækkar hlutfallslega þannig að það reynir á tekjustofna ríkisins. Þetta eru hin stóru viðfangsefni, hvernig við ætlum að tryggja velferðarkerfið við þessar aðstæður. Þá erum við komin að því hvernig við ætlum að nýta tímann til þess að skipuleggja hlutina og átta okkur á því hvað fellur undir þá grunnþjónustu sem við ætlum okkur að reka á tekjum ríkissjóðs, hvað þarf til. Mér hefur stundum þótt vanta á heildstæða umræðu þar. Við erum upptekin af því að takast á um mikilvæga hluti en heildarmyndin verður stundum eftir, þessi áminning. Við erum að tala um tímann til 2050, það er bara hinum megin við hornið þannig að við verðum að fara að taka þessa umræðu í stóru myndinni.

Ég held, herra forseti, að ég láti þessari yfirferð lokið og ég hef það á tilfinningunni að hún hafi verið býsna brotakennd. En það er nú bara svo. Ég kem mjög aftarlega í langri röð ágætra ræðumanna og fulltrúar fjárlaganefndar hafi farið vel yfir vinnuna á bak við þetta. Stóra málið er kannski það að við erum vonandi á lokaskrefum þessa kórónuveirufaraldurs og erum að kljást við ríkisfjármálin í skugga afleiðinga hans. Þessi veira fór alls ekki í manngreinarálit en ég held að ýmislegt bendi til að efnahagsáhrifin hafi bitnað mest á þeim verst settu. Það þarf að hafa það í huga, þegar við búum nú við aukna skuldasöfnun og hallarekstur, að þeirri þróun verði snúið við þannig að áherslan verði sem fyrst á það að rétta hag þeirra. Fyrirsjáanleiki og gegnsæi í næstu skrefum er lykilorðið. Ég held að stóra málið sé kannski það að þegar stjórnvöld tala um að vaxa út úr vandanum verði það gert á þann hátt að það sé ekki látið undir happ leggjast hvernig við gerum það, að við sitjum ekki hér og bíðum eftir næsta happdrættisvinningi á borð við ferðaþjónustuna, heldur höfum beinlínis skýra sýn um hvert við ætlum að stefna og hvernig við ætlum að ná markmiðinu. Það hlýtur að vera verkefni okkar allra hér.