152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég að reyna að muna. Nei, ég man ekki eftir öðru eins á svona stuttum tíma. En mér finnst raunar allt of algengt að við séum endurtekið að breyta dagsetningum, upphæðum og hinu og þessu í nefndavinnunni vegna mistaka sem einmitt urðu vegna þess að þingið varð að flýta sér svo mikið að klára þetta frumvarp eða hitt. Þetta gerist oft t.d. í kjölfar fjárlaga. Það verður að bjarga málum fyrir horn til þess að fólk fái styrk eða fólk missi ekki einhver réttindi eða hvað það nú er. En svona tíðar breytingar og breytingar sama dag — nei, ég man ekki eftir því. En þetta er kannski ágætur vitnisburður um það hve skipulagið í þingstörfunum er í raun lélegt. Ráðherrar fá endurtekið að trassa það að koma með mál inn í þingið þar til algerlega á síðustu stundu — það er útlit fyrir að þetta gerist aftur á þessu þingi eins og mér finnst raunar gerast á hverju þingi — og skila inn málum á lokametrunum sem þingið á svo að vinna í gríðarlega miklum flýti. Og svo næst á þingið að laga einhver mistök sem urðu vegna þess að þingið þurfti að vinna að málum í svo miklum flýti. Mér finnst þetta vera merki um hvað framkvæmdarvaldið ræður í raun miklu hérna og hvað það ber litla virðingu fyrir þinginu vegna þess að það er alltaf verið að hlaða á okkur verkefnum og það er ekki verið að gefa okkur tíma til að vinna þau. Síðan eigum við að leiðrétta verkefnin eftir á vegna þess að ekki var nægur tími til að vinna þau almennilega. Þetta er vítahringur sem fer í gang hér á hverju ári og hann er mjög þreytandi. (Forseti hringir.) Þetta þarf ekki að vera svona. Það er hægt að vinna miklu betur en þessi meiri hluti og aðrir meiri hlutar sem ég hef upplifað hafa verið að gera.