152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg í andsvari. Það stemmir algjörlega við mína persónulegu reynslu af því að vinna við mjög erfiðar aðstæður víða um heim í kjölfar hamfara. Fólk getur unnið við erfiðar aðstæður. Fólk getur unnið myrkranna á milli, sér í lagi þegar vel er haldið utan um það af stjórnendum og fólk fær viðurkenningu á, þó að það sé ekki nema í orði, að það sé að gera góða hluti.

En mig langaði að snerta á öðrum punkti sem hv. þingmaður nefndi sem varðar það að axla ábyrgð. Það er rétt sem hv. þingmaður benti á að það eru ansi fáir á Alþingi sem eru tilbúnir að axla ábyrgð og stundum virðist það hafa slæmar afleiðingar í för með sér í stjórnmálum að axla ábyrgð. Þetta er nokkuð sem á Norðurlöndunum, í löndunum hér í kringum okkur, þykir vera merki um þroska og leiðtogahæfileika, að axla ábyrgð. En við sáum það líka þegar var verið að eiga við Covid að þríeykið var tilbúið að axla ábyrgð, það var tilbúið að segja: Já, við gerðum mistök. Ég gaf leyfi fyrir einhverju sem ég hefði ekki átt að gefa leyfi fyrir. Og þá tókum við það oft í sátt miklu fyrr.

Mín spurning er einmitt um reynsluheim hv. þingmanns: Er ekki miklu mikilvægara að viðurkenna mistökin og laga þau og þannig að axla ábyrgð en alltaf bara að víkja? Að sjálfsögðu þurfa menn að víkja þegar menn gera stórvægilega hluti af sér. En þurfum við ekki líka að læra að viðurkenna mistök og vinna úr þeim strax frekar en að reyna alltaf að krafla yfir þau?