152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta svolítið áhugavert og áhugaverð nálgun hjá hv. þingmanni. Ég horfi á það að bera ábyrgð ekki alltaf bara út frá neikvæðni. Að axla ábyrgð og bera ábyrgð er líka að bera ábyrgð á jákvæðari framþróun og þroska, betri stefnu, betri rekstri, meiri fagmennsku. Það er líka að bera ábyrgð. Við erum kannski svolítið föst í því, stjórnmálafólk, að það er alltaf verið að benda á okkur og segja: Þið verðið að bera ábyrgð, og það er bara þetta neikvæða sem er alltaf uppi. En þegar hlutir eru vel gerðir þá má líka segja frá því. Ég hef trú á því að með skarpara og skýrara hlutverki alls stjórnarfólks í þessu, hvort sem það er starfsfólkið eða aðrir einstaklingar sem skipa stjórnina, þá muni það leiða til faglegrar og sterkari stjórnunar á sviði rekstrar og þeirrar fagmennsku sem við þurfum á að halda innan stjórnar til að spítalinn gangi. Þannig að ég hef trú á því að með því að hlutverk starfsfólks sé skýrt innan stjórnar, á hvorn veginn sem það verður, muni það verða til hins betra. En mér finnst þessi lýðræðisaðkoma heillandi. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að skoða meira, í nútímanum í dag eigum við að tengja og treysta frekar böndin á milli atvinnurekenda og launþega þegar kemur að þessu. Mér hefði þótt t.d. vera mikil bragarbót á því ef ríkisstjórnin hefði farið í það, af því að það er verið að gera grænbækur um hitt og þetta, að koma t.d. með grænbók um góða stjórnarhætti í opinberum stofnunum, alveg eins og Samtök atvinnulífsins og fleiri hafa gefið út leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja. (Forseti hringir.) Og bara núna nýlega er verið að setja alls konar siðareglur út af alls konar málum inn í stjórnarhætti fyrirtækja og ég hefði haldið að það væri líka (Forseti hringir.) góð grunnvinna hjá ríkinu að koma með slíkt áður en við förum að negla nákvæmlega niður allar stjórnir ríkisstofnana.