152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég hélt að ég væri að koma í andsvar en allt í lagi. Mig langar til að koma í seinni ræðu til að fara yfir ákveðin atriði sem ekki vannst tími til að nefna í fyrri ræðu. Mér finnst saga stjórnar Landspítalans, í lögum um heilbrigðisþjónustu, vera ákaflega merkileg. Í greinargerð kemur fram að með lögum nr. 97/1990 var skipuð sjö manna stjórnarnefnd fyrir ríkisspítalann til fjögurra ára í senn. Hlutverk stjórnarnefndar var að gera þróunar- og rekstraráætlanir fyrir sjúkrahúsin, einstakar skipulagsheildir þeirra o.s.frv. Árið 2007 kemur síðan ráðgjafarnefnd skipuð níu mönnum til fjögurra ára í senn og var henni ætlað að vera forstjóra og framkvæmdastjóra til ráðgjafar í þjónustustarfsemi og rekstri spítalans. Árið 2020, fyrir tveimur árum, var gerð breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu. Þá voru ákvæðin um ráðgjafarnefnd felld brott sem og ákvæði um læknaráð og hjúkrunarráð. Þá kemur svokallað fagráð til sögunnar sem forstjóri heilbrigðisstofnunar skipar. Forstjóra heilbrigðisstofnunar ber að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar.

Og nú erum við með frumvarp undir höndum. Við erum að tala um 32 ára sögu, 1990 stjórnarnefnd, 2007 ráðgjafarnefnd, 2020 fagráð og nú á að koma stjórn. Eins og fram kemur í frumvarpinu er á vissan hátt verið að stíga til baka til þess fyrirkomulags sem var við lýði fyrir fyrrgreindar breytingar. Ég geri þá ráð fyrir að við séum að stíga til baka til ráðgjafarnefndar eða stjórnarnefndar. Við erum sem sagt komin heilan hring. Ég hefði haldið að færa mætti fyrir því góð rök að taka upp lögin frá 1990, láta þau gilda, en önnur leið er farin. Nú á að samþykkja ný lög og það er greinilega verið að reyna að auka fagþekkinguna. En með því að hafa þessa nefnd til ráðgjafar eykst skriffinnskan og þyngslin í ákvarðanatökunni, það er ekki nægilega skýrt í frumvarpinu. Ég held líka að ekki sé nógu vel að verki staðið hvað það varðar t.d. að starfsmennirnir hafi ekki atkvæðisrétt. Það hefur verið minnst á það í ræðum hér, og ég tek heils hugar undir það sem þar hefur komið fram, að starfsmenn verði líka að koma að málum. Hvar er mesta þekkingin á rekstri Landspítalans? Jú, hún er hjá starfsmönnunum. Þar er þekkingin og raunverulega ætti jafnvel að auka vægi starfsmanna enn meira. Það myndi reynast mjög farsælt. Ef sækja á þekkingu á rekstri Landspítalans er best að sækja hana til Landspítalans sjálfs og starfsfólksins sem þar er.

Nú er íslenskt heilbrigðisstarfsfólk — ég þekki það bara í fjölskyldu minni og ég er gamall læknanemi sjálfur, bæði hér heima og í Danmörku. Íslenskir læknar stunda grunnnám hér heima og fara svo til Bandaríkjanna eða til Evrópu í sérnám og koma til baka. Aðrar þjóðir búa ekki að slíkum mannauði, læknum sem koma frá þessum svæðum. Ég tel að frumvarpið sé ekki nægjanlega vel úr garði gert til þess að það kalli á breytingu. Ég tel að við ættum að láta núgildandi lög standa og láta reyna á það fyrirkomulag. Ekki endilega vera að reyna að tikka í box til þess að uppfylla einhver ákvæði í stjórnarsáttmálanum heldur að efla spítalann með auknum fjárveitingum. Þetta snýst líka um það að fá hæfa yfirstjórnendur, að því þurfa menn að einbeita sér, það er það sem skiptir öllu máli. Við getum verið með öll kerfi heimsins en það er hæfi einstakra stjórnenda sem skiptir öllu máli. Ég tel að módelið sem við erum með sé sambærilegt við danska módelið. Ég held að það sé ekki nægilega vel hugsað að ætla að fara til Svíþjóðar og kópera hugmyndir þaðan sem eru upp að vissu marki heimatilbúnar. Ég tel að við ættum að hugsa þetta enn betur áður en við förum af stað, að auka fagþekkingu með þessum hætti. Þetta mun ekki breyta neinu varðandi rekstur Landspítalans í framtíðinni þar sem hann er undirfjármagnaður. Við þurfum að finna hæfa forstjóra og hæfa leiðtoga inn á spítalann. Það mun ekkert breytast með því að fá hæfa stjórnarmenn, það mun ekki breyta daglegum rekstri spítalans.