152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:50]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram enda tel ég það mjög af hinu góða. Mér hefur þótt það furðu sæta að stofnun sem tekur til sín einna mest af fé ríkissjóðs skuli ekki hafa haft stjórn yfir starfsemi sinni árum saman. Við erum mörg sem höfum kallað eftir þessu í mörg ár. Ábyrgð forstjóra spítalans er mikil og það hlýtur að vera styrkur fyrir forstjóra að hafa í liði sínu öfluga stjórn. Því vil ég endurtaka að ég tel að frumvarpið sé jákvætt skref hvað varðar stjórn spítalans. Hins vegar er það svo að í frumvarpinu eru nokkur atriði sem ég staldra aðeins við og myndi vilja sjá breytingar á. Ég tel a.m.k. rétt að við ávörpum það. Mig langar að nefna nokkur atriði sem ég tel vert að staldra við.

Fyrst ber að nefna að það skýtur skökku við að ráðherra skuli skipa bæði stjórn og forstjóra. Í þeim heimi sem ég hef lifað í hefur þótt eðlilegt að stjórnir ráði og reki forstjóra. Svo virðist vera, samkvæmt frumvarpinu, að stjórn hafi ekkert boðvald yfir forstjóra spítalans. Það er bagalegt. Ég geri mér grein fyrir því að fyrirkomulagið hjá hinu opinbera geti verið hvort tveggja. Ég geri mér sömuleiðis grein fyrir því að pólitískar áherslur stjórnvalda hverju sinni verða að ná fram að ganga. Því yrði erfitt ef heilbrigðisráðherra hefði enga aðkomu að ráðningu forstjóra. Ég myndi alla vega að lágmarki vilja sjá að stjórn sé ráðgefandi ráðherra varðandi skipun forstjóra, að stjórn veiti umsögn og hafi þar með einhverja aðkomu að ráðningu forstjóra.

Auk þess er í frumvarpinu ankannalegt að fulltrúar starfsmanna í stjórn hafi ekki atkvæðisrétt eins og hér hefur margoft komið fram. Það verður að vera á hreinu að annaðhvort eru fulltrúar starfsmanna fullgildir stjórnarmeðlimir með atkvæðisrétt eða þá áheyrnarfulltrúar með tillögurétt og málfrelsi á fundum. Auk þess vantar algerlega útlistun á því hvernig fulltrúar starfsmanna verða valdir inn í stjórnina. Mun ráðherra skipa þá eða munu starfsmenn geta valið sína fulltrúa, og þá með hvaða hætti? Ég verð sömuleiðis að geta þess að mér finnst ákveðin mótsögn vera í frumvarpinu varðandi upplýsingagjöf til ráðherra. Í frumvarpinu er tekið fram að forstjóri beri ábyrgð á rekstrarútgjöldum, að rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Svo skal formaður stjórnar reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stjórnar, stöðu og árangri sem og miklum frávikum í rekstri, hvort heldur sem er rekstrarlegum eða faglegum. Með öðrum orðum finnst mér skorta á betri aðgreiningu á hlutverki og ábyrgð stjórnar og forstjóra gagnvart ráðherra. Ég vara við því að óskýr verkaskipting getur leitt til glundroða og þá verri niðurstöðu. Þá er betra heima setið en af stað farið.

Fólki hefur orðið tíðrætt um það hér í dag hvernig hæfni, þekkingu og bakgrunni fólk skal búa yfir sem tekur sæti í stjórn spítalans, að þar skuli sitja einstaklingar með þekkingu á rekstri, áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu, á vísindarannsóknum sem og opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar. Þetta eru ekki litlar kröfur og ekki óeðlilegar en þess ber þó að geta að í mörgum opinberum stofnunum eru kröfur ekki eins tíundaðar og hér er gert. Nefna má dæmi eins og félagið Isavia þar sem engar kröfur eru nefndar umfram þær sem mælt er fyrir um í hlutafélagalögum. Ekki eru gerðar kröfur um að fólk sé með menntun í flugrekstri, flugmenn eða hvernig sem það er. Í Bankasýslu ríkisins, sem skiptir verulega miklu máli í fjármálakerfi okkar Íslendinga, er gerð krafa um haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum og að menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust og þeir hafi trausta þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja. Einnig er gerð krafa um lögræði, búsforræði og hreint sakavottorð.

Ég hef sömuleiðis oft velt því fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að forstjóri Landspítala sé læknir. Er það endilega heppilegasta menntunin eða hæfnin til að fara með stærsta útgjaldalið ríkisins? Landspítali er flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Spítalinn virðist hafa glímt við langvarandi vanda, hvort sem er á sviði rekstrar, húsnæðis eða mannauðs, um langan tíma. Fjármálaráðherra sagði á síðasta ári að vandi Landspítalans væri fjölþættur og yrði ekki leystur með auknum fjárframlögum einum og sér. Einn liður í því er að styrkja umhverfi stjórnunar á spítalanum. Þetta frumvarp er liður í því að bæta rekstrarformið og bind ég vonir við að í þeirri umræðu sem hér fer fram, og þegar málið fer fyrir nefnd, muni okkur takast að sníða af agnúa sem við teljum vera á frumvarpinu og að okkur takist að sammælast um að það sé gæfuspor fyrir Landspítalann að þar sitji stjórn forstjóranum til halds og trausts.