152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hafði boðað það að ég ætlaði að hefja yfirferð yfir stefnu danskra jafnaðarmanna í hælisleitendamálum en ég held að hún sé mjög gagnleg fyrir íslensk stjórnvöld nú þegar við leitum lausna til að hjálpa sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda. Þegar ég hlýddi á ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar hér áðan þá kviknaði hins vegar aðeins í mér hvað varðar pólitíska nálgun íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, á þennan málaflokk. Það vekur auðvitað mikla furðu að sjá að við séum hér að ræða þetta mál í 2. umr., mál sem felur í sér grundvallarstefnubreytingu íslenskra stjórnvalda, þar sem þau færa sig frá þeirri stefnu sem Norðurlöndin eru að færast í áttina að og fara í þveröfuga átt. Við ræðum þetta mál á sama tíma og Sjálfstæðismenn treysta sér ekki til að setja eigið útlendingafrumvarp á dagskrá, mál sem fyrst kom fram í tíð þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, en hefur nú verið útþynnt töluvert að því er mér skilst. Verður fróðlegt að heyra umræðuna ef hún fer einhvern tímann fram. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysta sér ekki til að setja eigið mál á dagskrá, taka frekar þetta mál Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, held ég mér sé óhætt segja, en sitt eigið. Þeir eru ekki bara að gefa Framsóknarflokknum sæti í borgarstjórn í miklum mæli heldur eru þeir líka að eftirláta þeim dagskrárvald hér á þinginu. Þetta er kannski svolítið lýsandi fyrir stöðuna innan ríkisstjórnarinnar þessa dagana, stöðu Sjálfstæðisflokksins gagnvart hinum flokkunum. Það virðist eins og Sjálfstæðismenn séu fyrst og fremst orðnir fegnir að fá að vera með. Svo heyrðum við fyrr í dag að ráðherrar ræða saman og hafa uppi miklar viðvaranir um eigin áform en framkvæma þau samt án þess að upplýsa þingið um það. Þetta kann að vera eitt þeirra mála sem einhverjir ráðherrar hafa rætt sín á milli og varað við en hafa ekki látið bóka neitt og gera ekki neitt með það þangað til að það verður orðið of seint.

En að betri leið og víkur þá sögunni að stefnu danskra jafnaðarmanna í málefnum hælisleitenda. Fyrst smáviðbót, frú forseti, varðandi aðdragandann. Fyrri ríkisstjórn í Danmörku hafði verið með það sem kallað var harða stefnu í þessum málaflokki og m.a. innleitt löggjöf sem mér þótti nú eiginlega brot á mannréttindum — ekki eiginlega, mér fannst þetta ekki hægt. Dönsk stjórnvöld ákváðu á sínum tíma, og auglýstu í miðlum í Miðausturlöndum, að hælisleitendur sem kæmu til Danmerkur myndu þurfa að afhenda megnið af eigum sínum ef þær væru umfram eitthvað ákveðið viðmið, skartgripi, peninga og hvað annað. Auðvitað má ætla að aldrei hafi staðið til að taka eigur af fólki. En hvers vegna voru þeir þá að þessu? Jú, það var til þess að beina straumnum annað en til Danmerkur.

En þá að viðbrögðum jafnaðarmanna sem hafa mótað mjög heildstæða stefnu byggða á arfleifð flokksins, á pólitískri arfleifð danskra sósíaldemókrata í 40 ár, eins og ég mun hugsanlega fara yfir hér síðar í dag þegar ég fer yfir aðdragandann og söguna á ítarlegri hátt. Þetta er stefna sem mikil vinna hefur verið lögð í, stefna sem er úthugsuð. Það er fullt tilefni fyrir íslensk stjórnvöld að setja sig inn í þessa stefnu og því finnst mér óhjákvæmilegt, í samhengi við umræðu um þetta mál, annað en að fara stuttlega yfir þessa stefnu. Ég mun svo kannski síðar, ef tími gefst til, fara nánar út í smáatriði

Það sem ég hef gert er að ég hef skrifað þessa stefnu upp á íslensku, þýtt hana yfir á íslensku. Þingmálið er íslenska og sjálfur myndi ég ekki skilja hvað ég væri að segja ef ég ætlaði að reyna að lesa þetta á dönsku, nema að einhverju leyti. (Forseti hringir.)

(Forseti (DME): Svona er þetta.)

Frú forseti. Ég var rétt við það að hefja lesturinn en svona er þetta. Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.