152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar, líkt og íbúar annarra landshluta, erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og sú þróun er ekki að fara að breytast næstu áratugi. Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að samgöngubótum og nú er útlit fyrir að þeir sem búa og starfa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. 20 milljarða kr. metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum eru nú í áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, 2020–2024. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir. Já, við skulum tala um Dynjandisheiðina. Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Í síðustu viku var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024. Þegar þessum kafla lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á 25 km kafla á heiðinni. Frá opnun Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt að halda veginum um heiðinna opnum yfir verstu vetrarmánuðina. Uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður- og suðursvæðis allt árið um kring.

Virðulegi forseti. Enn eitt stóra verkefnið er hafið í Gufudalssveit. Það hillir undir að vegur um Teigsskóg verði að veruleika. Vinna við veginn hafin og þar með er séð fyrir áratugadeilur um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun. Víðar er verið að vinna að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla á þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir okkur, hvort sem við búum á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.