Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:24]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu og ég ætla að taka undir með honum í því sem hann sagði í upphafi hennar, að honum fannst fjármálaráðherrann skemmtilegur og líflegur í ræðustólnum. Það fannst mér líka og mér fannst hv. þm. Logi Einarsson líka vera býsna skemmtilegur í sinni ræðu.

En nóg um það, nóg um skjall. Mig langaði aftur á móti að grípa niður í ræðu hv. þingmanns og veita andsvar eins og það heitir um þessa þrákelkni manna að tala um að það eigi að selja Landsvirkjun. Það stendur ekki til að selja Landsvirkjun. Þeim hugmyndum var vissulega hreyft, m.a. í mínum flokki, við allt aðrar aðstæður en eru í dag. Ekkert í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, ekkert í sáttmála þessarar ríkisstjórnar. Enginn hefur það á takteinum í dag að selja Landsvirkjun enda væri engin samstaða um það í samfélagi okkar. Og þetta vildi ég láta heita andsvar, virðulegur forseti, og ég læt mér í léttu rúmi liggja hvort hv. þingmaður svarar því en þetta er ábending til hans, leiðrétting, sem ég vil koma á framfæri.