Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þing Alþýðusambands Íslands var sett í gær og óska ég þingfulltrúum velfarnaðar í þingstörfum sínum og að þeim auðnist að stilla saman strengi í baráttunni fyrir bættum kjörum launafólks í landinu og verja þau kjör sem áunnist hafa í gegnum tíðina með miklum samtakamætti. Það vill oft gleymast hve stór hlutur verkalýðshreyfingarinnar er í framförum á Íslandi, miklum framförum sem orðið hafa á síðustu 50–100 árum, og hversu margir málaflokkar eru sterkari en annars hefði verið vegna aðkomu verkalýðshreyfingarinnar í samningagerð og í samstarfi við ríkisvaldið. Sterk verkalýðshreyfing veitir stjórnvöldum hverju sinni aðhald og kemur brýnum málum á dagskrá sem snerta hagsmuni launafólks frá vöggu til grafar, eins og sagt er.

Þess vegna er það aldrei brýnna en nú, þegar kjarasamningar eru fram undan, að hefja sig upp yfir deilur og innanhússátök og koma sterk og samtaka að samningaborðinu við atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög. Síðustu lífskjarasamningar tókust að mörgu leyti mjög vel og þar var aðkoma ríkisins til hagsbóta fyrir ýmsa málaflokka sem snerta launafólk. En nú þegar verðbólgan geisar og stöðugar vaxtahækkanir eru þá verður að sameinast um það, bæði af hálfu ríkisins og verkalýðshreyfingarinnar, að standa vörð um kjör launafólks í landinu. Það er óþolandi þegar tal málsmetandi manna er um að nú þurfi launafólk að sýna ábyrgð. Enn og aftur á launafólk að sýna ábyrgð en ekki efri lög þjóðfélagsins með ofurlaun og margföld laun verkafólks sem stendur nú frammi fyrir því að afborganir af húsnæðislánum rjúka upp og framfærsla öll hækkar. (Forseti hringir.) Þetta er ekki þolandi og nú þarf að sýna samstöðu og styrk verkalýðshreyfingarinnar við að standa vörð um kjör launafólks og ríkið á að koma að því líka.