Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hún vakti athygli, blaðagrein sem birtist nýlega á netmiðlum frá aðstandanda heilabilaðrar konu sem dvelur á hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu. Þar er lýst ýmsum þáttum í umönnun hennar sem er mjög ábótavant, svo vægt sé til orða tekið. Við höfum þurft að horfa upp á ýmislegt í fortíðinni, ýmsar birtingarmyndir óásættanlegrar meðferðar á fólki á ýmsum aldri, á heimilum og stofnunum, reknum af bæði einkaaðilum og opinberum aðilum, þar sem umönnun og aðbúnaður hefur verið óforsvaranlegur og viljum við koma í veg fyrir að slíkt gerist í framtíðinni.

Það er enginn efi í mínum huga að allir sem koma að umönnun aldraðra í rekstri hjúkrunarheimila vilja gera sitt besta og þannig er það að öllu jöfnu. Þó má ekki sofna á verðinum og margir hlutir geta spilað inn í að eitthvað fari úrskeiðis og því þarf að vera öflugt gæðaeftirlit og réttir ferlar sem grípa inn í þegar grunur er um að þjónusta eða aðbúnaður hjá öldruðum sé óásættanlegur.

Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra sem gengur út á það hvort skipulagt, opinbert eftirlit sé á hjúkrunarheimilum landsins hvað varðar umönnun aldraðra, lýðheilsustefnu og hvað varðar næringarstefnu í fæðuframboði og ýmislegt fleira. Einnig nefni ég hlutfall faglærðra og ófaglærðra inni á þessum heimilum eða stofnunum, hjúkrunarheimilum, og hver starfsmannaveltan hafi verið í ákveðinn árafjölda. Mér finnst mikilvægt að draga þetta fram og að við séum öll meðvituð um það og viljum að okkar eldri borgarar fái sem besta umönnun, hvar sem þeir eru staddir á sínum efri árum, hvort þjónustan er við þá á hjúkrunarheimilum eða á heimilum og við hvaða veikindi þeir eru að glíma hverju sinni. Við eigum að vanda okkur þar.