Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[11:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég skil vel hv. þingmenn eins og þann sem steig hér úr ræðustól. Það snertir auðvitað innstu hjartarætur þegar rætt er um kjör þeirra sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Ég tala nú ekki um á þessum árstíma þegar allir vilja gera sem best við sína eftir getu og efnahag. Ég held að heilt yfir séum við nú þannig þenkjandi, hvar í flokki sem við stöndum, að við viljum gera vel við þá sem minnst hafa og minnsta burði hafa til að framfleyta sér hverju sinni. En oft er leiðin löng að einhverju sameiginlegu takmarki og ágreiningur um útfærslur og allt þetta flókna kerfi sem er búið að byggja upp varðandi öryrkja, eldri borgara og aðra sem þiggja stuðning frá okkar sameiginlegum sjóðum og eiga fullan rétt á því hverju sinni.

Í dag getum við þó glaðst yfir því að það er verið að leggja hér fram tillögu um að öryrkjar fái þessa eingreiðslu upp á rúmar 60.000 kr. og er það vel. Það var kynnt hér í ræðustól á sínum tíma, af formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, að það stæði til að skoða hvað hægt væri að gera í þeim efnum og hér er komin fram tillaga sem ég held að við getum öll glaðst yfir. Við getum svo auðvitað alltaf haldið áfram. Það er ekki búið að bæta allt heimsins böl með þessari einu tillögu og eftir standa hópar sem þyrftu á því að halda að kjör þeirra yrðu bætt, það er enginn vafi. Í okkar ríka samfélagi eru allt of margir sem eru að basla á lágum launum eða lágum lífeyri. Vegna veikinda og ýmiss konar hluta sem enginn getur ráðið við er staða þeirra erfið og fjármunir eru fljótir að fara í brýnar nauðsynjar eins og húsaleigu og fæði og klæði og það sem kemur upp á í lífinu hjá hverjum og einum, þannig að auðvitað erum við ekki komin á einhverja endastöð varðandi það að bæta kjör þeirra verst settu í samfélaginu.

Það hefur verið spurt hér: Af hverju er þá ekki einnig lagt til að bæta kjör t.d. eldri borgara sem hafa verst kjörin með sama hætti og hægt að sýna fram á hvað þeir eru að fá á mánuði? Þetta er alveg sanngjörn spurning, það fer ekkert á milli mála að þetta er mjög sanngjörn spurning. Líka það sem hefur verið velt upp hér, að ellilífeyrisþegi sem var áður öryrki skerðist í tekjum. Hvaðan koma þau geimvísindi að það sé eðlilegt að hann hafi það allt í einu miklu betra af því að hann dettur í að verða 67 ára?

Allt eru þetta mannanna verk og alltaf hægt að bæta og breyta en það hefur því miður tekið allt of langan tíma eins og við sem höfum verið hér inni á þingi lengi þekkjum. Á síðasta kjörtímabili voru eyrnamerktir 4 milljarðar í að endurskoða greiðslukerfi öryrkja og það tókst ekki að ljúka þeirri vinnu, því miður. En samt voru þessir fjármunir greiddir út til þessa hóps með einum eða öðrum hætti, eins og hefur komið fram, þó að niðurstaða hafi ekki verið komin í þessa vinnu. Nú heldur þessi vinna áfram og ég ætla bara rétt að vona að hún gangi hraðar fyrir sig og það verði engin ákvarðanafælni þar, að menn fari að sjá fyrir endann á því hvernig þeir ætla að lyfta upp kjörum þeirra sem verst eru settir í þessum hópi okkar, samfélagsþegnar sem eru öryrkjar og búa við erfið kjör. Ég skil það þannig að einnig sé vinna í gangi á vegum félagsmálaráðuneytisins, starfshópur sem er að vinna að því að skoða kjör eldri borgara. Ég tel það vera mjög mikilvægt og sú vinna má ekki dragast á langinn. Menn hafa sett á fót ýmsa spretthópa, eins og við þekkjum, í ýmsum málaflokkum og það er ekki þannig að það liggi ekki fyrir upplýsingar um þessi mál og alls konar skýrslur og greinargerðir og aðgangur að upplýsingum. En oftar en ekki er erfiðara að ná einhverjum samræmdum „common sense“, afsakið, eða sameiginlegri niðurstöðu á íslensku, með heilbrigða skynsemi að leiðarljósi, hvernig menn sjá fyrir sér í okkar velferðarþjóðfélagi að þessir samborgarar okkar geti framfleytt sér við þær aðstæður sem þeir búa við hverju sinni.

Ég lagði fram fyrirspurna sem varaþingmaður í dag. Ég hef setið á þingi ansi lengi, í 12 ár, en nú kem ég af og til hingað inn á þing og síðast þegar ég kom inn sem varaþingmaður þá var ég með fyrirspurn sem kannski snertir umræðu í þessum málum sem eru til umfjöllunar. Hún hljóðaði á þennan veg, með leyfi forseta: Hvers konar framfærsluviðmið eru höfð til hliðsjónar hvað varðar almennar bótagreiðslur og félagslegan stuðning ríkis og sveitarfélaga og embættis skuldara og hvernig eru þau samansett með eða án húsnæðisliðar og hve há eru þau eftir samsetningu og eru framfærsluviðmiðin vísitölubundin?

Mér finnst þetta vera spurning sem á rétt á að koma inn í þessa umræðu og eflaust er þetta til skoðunar enn þá. Ég er ekki búinn að fá svar við þessari skriflegu fyrirspurn en vænti þess að það gerist innan tíðar. En veruleikinn er auðvitað sá að menn verða að horfa til þess hver raunframfærsla er hjá fólki í landinu og þá erum við ekki að tala um einhvern lúxus eða munað heldur bara grunnþarfir hvers og eins til að framfleyta sér. Við getum ekki lokað augunum fyrir því hver raunveruleg framfærsla er. Ég tala nú ekki um þegar húsnæðisliðurinn hefur rokið upp eins og undanfarið, sem er auðvitað algjör hneisa og ég tala nú ekki um hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað ekki hægt að horfa fram á þetta án þess að ríki og sveitarfélög grípi með einhverjum hætti þarna inn í og komi í veg fyrir þessa okurstarfsemi leigufélaga þar sem verið er að misnota erfiða stöðu margra leigjenda og reka þau út á götu í raun og veru þegar þau ráða ekki við að borga húsaleigu sem rýkur upp, sem er kannski orðin einn þriðji af þeim tekjum sem þau hafa í hverjum mánuði eða meira.

Verkefnin eru víða en ég veit og hef fulla trú á því að okkar ágæti félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson sé að leggja sig allan fram við að reyna að vinna að þessum málum með góðu fólki hratt og vel og taka inn í þá vinnu bæði kjör eldri borgara og varanlega endurskoðun á greiðslukerfi öryrkja. Það verður bara að vinna þá vinnu eins hratt og mögulegt er því að það er alveg rétt, sem kom fram áðan, að menn auðvitað borða ekki heildarendurskoðun þótt hún sé með góðri sósu, eins og stundum er sagt um rjúpuna. Nú brennur á þeim sem eru þarna í forsvari og okkur öllum sem hér erum á þingi og í ríkisstjórn að láta hendur standa fram úr ermum því að við eigum ekki að hafa þann smánarblett á okkur sem samfélag að hluti okkar samfélagsþegna, eldri borgara, öryrkja, lágtekjufólks, þurfi að reiða sig á stuðning hjálparsamtaka, matargjafir og góðvilja vina og ættingja. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á þetta í okkar ríka samfélagi. Ég er mjög ánægð með þetta skref og veit að það er margt annað í pípunum sem er verið að vinna að í félagsmálaráðuneytinu og þetta er gott skref í rétta átt. En verkefnin bíða áfram og fjármögnun í þessa brýnu vinnu sem er verið að vinna núna, í að tryggja góð kjör þessa þjóðfélagshópa.