Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[11:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta með framfærsluviðmiðin. Ég man alveg eftir því frá árunum hér á undan að þá voru þó nokkuð mörg framfærsluviðmið notuð í velferðarráðuneytinu og hjá viðkomandi ráðherra þess málaflokks. Þau voru mjög breytileg: Var húsnæðisliðurinn inni í því eða ekki? Þá var ekkert samræmi á milli embættis skuldara þar sem mikið gekk á varðandi húsnæði eftir hrunið og annað því um líkt, sem sneri að bótaflokkum og öðru. Þess vegna fannst mér mikil ástæða til að leggja fram þessa fyrirspurn til að vita hvort þetta væri enn þá svona óljóst; eiginlega var puttinn bara settur upp í loftið og fundið út eitthvað sem þykir henta hér og þar og ekkert samræmi þar á milli.

Ég held að þetta hljóti að vera eitt af því í raunheimum sem þarf að fá niðurstöðu í og það sé hægt að treysta á að við séum ekki að bjóða okkar verst stadda fólki upp á kjör og greiðslur sem eru langt undir framfærsluviðmiðum. Það þurfa allir að búa í einhvers lags húsnæði. Það fer ekkert á milli mála. Það er ekki hægt að greiða fólki eftir einhverjum föstum viðmiðum þar sem húsnæðisliðurinn er ekki inni. Það er engin skynsemi í því. En ég bíð bara spennt eftir að fá þessa samantekt og vonandi kemur hún sem fyrst.