Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[11:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Verður maður ekki að hafa trú á mannkyninu og vona að það finnist nú reiknimeistarar sem geta reiknað út raunframfærsluviðmiðið? Ég veit ekki hvort þessi húsnæðisliður, með eða án, hafi verið hugsaður eitthvað í þá átt að þeir sem ættu raunverulega húsnæði — sem betur fer eru eldri borgarar og öryrkjar mismunandi staddir, sumir eiga húsnæði og þá er staða þeirra auðvitað betri. En staða þeirra sem þurfa að treysta á leigumarkað er bara allt önnur. Þeir hafa kannski misst starfsorku snemma á ævinni eða haft lágar tekjur alla ævi. Einhvern veginn held ég nú að allar þessar upplýsingar og möguleikar til að fá þessi mál á hreint liggi fyrir. Ég verð bara að treysta því og trúa og gera kröfu á það að þetta gangi hratt og vel fyrir sig í þessari atrennu.

Ég rifja það líka upp að ég var mjög ánægð þegar ég mælti fyrir máli á sínum tíma varðandi félagslega viðbótarstuðninginn gagnvart ákveðnum hópi. Það var nefnt hér fyrr af öðrum hv. ræðumönnum að fólk sem hefði verið inni á heimili, kannski konur fyrst og fremst og líka konur frá öðrum löndum, ætti ekki aðgengi að lífeyrissjóðum, en það kom frumvarp um félagslegan viðbótarstuðning sem lyfti kjörum þessa hóps sem tók gildi 1. janúar 2021. Það var líka skref í rétta átt. Þó að við viljum alltaf halda áfram að þróa þetta kerfi og gera betur þá eigum við líka að halda því til haga sem vel er gert og treysta því að það verði áfram vel meinandi fólk inni á þingi sem heldur utan um þessa málaflokka og hugsar um borgarana okkar sem verst eru staddir.