Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[17:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma aðeins inn á þetta fína mál sem hér liggur fyrir. Það er ánægjulegt að það séu hérna þrjú mál á dagskrá í dag fyrir utan umræðuna um fjárlagafrumvarpið sem lúta öll að því að bæta kjör þeirra sem verst hafa það í samfélaginu. Vissulega getum við haldið áfram að gera betur og ég treysti því að þessi endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu taki mið af því að skoða það sem var nefnt hér af hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni varðandi skerðingar sem snúa að framfærsluuppbótinni. Ég trúi því að þetta sé allt undir til skoðunar. Ég tel það vera mjög mikilsvert að hækka frítekjumarkið upp í 200.000 kr. á mánuði og að það sé hvati til að þeir öryrkjar sem hafa möguleika á því geti aflað sér atvinnutekna. Það er ekki bara að það séu þá einhverjir möguleikar á meiri tekjum heldur er líka andlega hliðin þarna undir, að öryrkjar geti verið meiri þátttakendur í samfélaginu heldur en kannski annars hefði verið. Eins og var nefnt í fyrri ræðu eru auðvitað allir að borga skatta og skyldur af sínum tekjum, það er ekki eins og menn komist eitthvað frá því. En það er bara mjög jákvætt að þessi hækkun á frítekjumarki skerði ekki örorku- og endurhæfingarlífeyri. Þetta varðandi framfærsluuppbótina finnst mér vera eitthvað sem þyrfti að skoða og er kannski ekki möguleiki á því á þessum stutta tíma sem nú er til stefnu en ég treysti því að það verði gert í framhaldinu.

Svo er eitt sem mér finnst að hafi ekki verið tekið nógu vel á af hálfu atvinnulífsins, hvort sem það eru hinir opinberu aðilar eða einkaaðilar, og það er að mæta fólki með minni starfsgetu, taka það til sín og bjóða því upp á vinnu við hæfi. Það þarf að vera þetta samstarf á milli aðila vinnumarkaðarins við ríki og sveitarfélög um að liðka til með sveigjanlegri vinnutíma og styttri vinnutíma og öllu því sem hægt er að gera. Mér finnst það ganga of hægt að bjóða fólki með skerta starfsgetu vinnu við hæfi því að það skiptir gífurlega miklu máli að komast í vinnu miðað við sína getu og möguleika. Það er ekki gott að mæta því alltaf ef þú ætlar að sækja um vinnu og ert með skerta starfsgetu að viðkomandi treysti þér ekki til vinna vinnuna þar sem þú hefur skerta starfsgetu og geti ekki boðið þér upp á starf hálfan daginn eða hlutastarf eða sveigjanlegri vinnutíma. Það þarf að reyna að koma enn þá frekari hvötum inn í atvinnulífið. Opinberir aðilar mega líka taka þetta til sín, finnst mér.

Ég vil bara ítreka að mér finnst þetta mjög ánægjulegt og vona að þetta sé bara hluti af þeirri breytingu sem verður til batnaðar á örorkulífeyriskerfinu í heild sinni því að þar eru næg verkefni til að gera það einfaldara og betra fyrir þá sem þurfa að búa við það.