Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það náðist stór áfangi í gær við undirritun kjarasamninga. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld höfðu þar aðkomu að og voru tilbúin til að liðka fyrir samningum með öflugum kjarapakka sem vigtaði vel inn í kjör þeirra sem var verið að semja við í landinu. Þar er verið að tala um stórauknar barnabætur, kerfisbreytingar varðandi vextina, vaxtabætur, húsaleigubætur hækkaðar og verður komið á samtímagreiðslum barnabóta, sem skiptir mjög miklu máli. Heimilt er að nýta áfram séreignarsparnaðinn til kaupa á íbúðum, fjölgun er í uppbyggingu íbúða og líka í leiguíbúðakerfinu og réttarstaða leigjenda er tryggð enn betur og fjármunir til neytendaverndar, sem mér finnst líka skipta miklu máli. En aðkoma stjórnvalda snýr fyrst og fremst að stuðningi við lífskjör lág- og millitekjufólks. Með þessum aðgerðum kemur það mjög sterkt inn í þau kjör og þá samninga sem verið var að undirrita. Fjárlögin styðja vissulega líka við lífskjör fólks í landinu með yfir 12 milljarða aukningu til heilbrigðismála, sem nýtist vel til að stytta biðlista og auka þjónustu við aldraða. Það verður unnið að mörgum mikilvægum málum á samningstímanum sem skipta miklu máli fyrir launafólk. Stjórnvöld komu að gerð síðustu lífskjarasamninga og það tókst vel. Núna koma stjórnvöld að þessum samningum með mikla fjármuni í aðgerðir, sem skiptir miklu máli, í samspili við samninga aðila á vinnumarkaðnum. Ég treysti því að áhrif þessara samninga auki stöðugleika og lækki vexti og lækki verðbólgu.