Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Góðar tekjur hafa fylgt strandveiðum undanfarin ár í höfnum landsins og t.d. var Vesturbyggð með yfir 4 milljónir í hafnarsjóð sem er hátt hlutfall af þeirra tekjum. Undanfarin ár hafa sýnt fram á hversu góð áhrif strandveiðar hafa haft á byggðafestu og atvinnu í þessum sjávarbyggðum. Handfæraveiðar eru umhverfisvænar veiðar sem eru stundaðar með rafmagnsrúllum sem er jákvætt í umræðunni um orkuskipti. Botnrask með dregnum veiðarfærum losar mikið magn af kolefni. Nú eru uppi áform um að hleypa stórum togskipum inn á svæði sem hafa verið í friði til áratuga. Það er ljóst að það mun hafa mjög mikil neikvæð áhrif á sóknarmynstur og veiðimöguleika smærri báta sem veiða með vistvænum veiðarfærum og nýtt hafa grunnslóðina næst landi. Mikil samþjöppun hefur verið bæði í stóra kerfinu og í krókaaflamarkskerfinu undanfarin ár og stórútgerðin kaupir grimmt minni útgerðir til sín og er að ná miklu eignarhaldi í litla kerfinu sem var hugsað sem mótvægi við stórútgerðina og sem tækifæri til útgerða í minni sjávarplássum sem misst hefðu kvóta. Þær hugmyndir stjórnvalda sem eru uppi um að stækka krókaaflamarksbáta í nafni orkuskipta með afkastamiklum veiðarfærum sem fara illa með botninn eru ekki góðar að mínu mati og ýta enn frekar undir samþjöppun og uppkaup stórútgerðarinnar í krókaaflamarkskerfinu. Þetta mun þýða að veiðiheimildir færast áfram yfir á togaraflotann til stórútgerðarinnar sem hefur yfir 80% veiðiheimilda í dag. Við verðum að verja með öllum ráðum frjálsa smábátaútgerð í landinu og tryggja 48 daga til strandveiða, stækka félagslega hlutann og koma í veg fyrir að stórútgerðin sogi til sín enn frekari aflaheimildir.