Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[20:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér var mælt fyrir máli sem snýr að lögum um stjórn fiskveiða og það mál snýr að, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að orkuskiptum og stækkun á krókaaflamarksbátum. Það liggja nú fyrir þinginu þrjú mál sem lúta að stjórn fiskveiða og breytingum í nafni orkuskipta og ég verð að viðurkenna að ég hef sérstakar áhyggjur af tveimur þeirra, þessu máli og því sem hæstv. ráðherra mun mæla fyrir á eftir. Ég tel að þau hafi mjög neikvæð áhrif á veiðislóð smábáta á grunnslóð og það sé verið að hleypa öflugum og stórum togskipum inn á viðkvæm svæði sem hafa verið í friði til áratuga, með því að heimila stækkun á krókaaflamarksbátum um 50%, eins og var nefnt hér áðan, úr 30 brúttótonnum í 45 brúttótonn með tilheyrandi meiri togkrafti. Það var árið 2013 sem var veitt heimild til að stækka krókaaflamarksbáta úr 15 brúttólestum í 30 brúttólestir sem leiddi til mikillar fækkunar smábáta og samþjöppunar í greininni. Hér er verið að ganga enn lengra með heimild til að stækka krókaaflamarksbáta og auka við togkraft þeirra sem ég tel að leiða muni til enn frekari samþjöppunar í útgerð og í framhaldinu til uppkaupa stórútgerðarinnar á smærri útgerðum.

Það hafa ekki farið fram neinar vísindalegar rannsóknir á áhrifum þess að hleypa öflugum togskipum inn á svæði sem hafa verið í friði í áratugi. Það liggur ekkert fyrir um áhrif þungra og öflugra veiðarfæra á vistkerfið með tilheyrandi botnraski og losun kolefnis. Það er núna verið að birta í samráðsgátt reglugerð sem gengur einmitt út á það að vernda viðkvæm hafsvæði og botnvistkerfi fyrir botnveiðum en það er bara fyrir utan 12 mílur. Mér finnst þetta vera í öfugri forgangsröð. Á sínum tíma var vissulega leyft að fara með togskip inn fyrir 12 mílur. En nú er verið að ganga enn lengra. Ég tel að þetta hafi áhrif á lífríkið, hrygningarslóð botnfisks og að krókaaflamarksbátar geti í framhaldinu haft jafn öflugar vélar og eru í stærstu togurum landsins. Það er mikið sótspor af togveiðum og það hefur verið kannað að sótspor t.d. smábáta á handfærum er einum þriðja minna heldur en togveiða. Það eru auðvitað fyrst og fremst stundaðar handfæraveiðar á grunnslóð og þær eru umhverfisvænar veiðar sem eru stundaðar með rafmagnsrúllum sem ég tel vera jákvætt í ljósi umræðunnar um orkuskipti. Það er ljóst að þessi áform munu hafa neikvæð áhrif á sóknarmynstur smábáta og veiðimöguleika þeirra sem nýtt hafa grunnslóðina við landið. Ég hef áhyggjur af því að stórútgerðin haldi áfram að kaupa upp krókaaflamarksbáta eins og verið hefur með þessum breytingum og smábátaútgerð dragist saman eins og hún hefur verið stunduð af einyrkjum og aukið möguleika þeirra í minni sjávarbyggðum á að skapa sér vinnu og vera sjálfs síns herra en ekki vera einhverjir leiguliðar hjá stórútgerðinni.

Allt fellur þetta, finnst mér, á neikvæðan veg, þessar hugmyndir. Vissulega er verið að fara fram með góð áform um orkuskipti. En mér finnst það vera mjög alvarlegt ef þau hafa til hliðar þessi neikvæðu áhrif; samþjöppun í krókaaflamarkskerfinu og spilli vistkerfinu og veiðislóðum á grunnslóð. Ég tel miklu frekar að það eigi að stórefla frjálsa smábátaútgerð í landinu og tryggja 48 daga til strandveiða, stækka félagslega hlutann og koma í veg fyrir að stórútgerðin sogi til sín allar veiðiheimildir. Smábátar hafa ekki möguleika á sækja langt út á haf og þess vegna ítreka ég að ég tel það bara óskiljanlegt að verið sé að spilla veiðislóð þeirra með stórvirkum veiðarfærum. Ef Hafrannsóknastofnun telur að auka eigi veiðar á grunnslóð þá ætti það frekar að vera með umhverfisvænum veiðarfærum dagróðrarbáta. Ekki sé ég að það sé verið að tala um einhverjar mótvægisaðgerðir fyrir smábáta vegna þeirra neikvæðu afleiðinga sem ég tel vera þarna á ferðinni svo að þetta tel ég vera allt hið versta mál vegna þess að það hefur þessar tvær hliðar, aðra jákvæða en hina neikvæða.

Í umsögnum margra sem stunda veiðar á grunnslóð og þeirra félagasamtaka, þegar þetta mál var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, voru vissulega höfð uppi mjög alvarleg viðvörunarorð um að fara ekki í þessar breytingar með þessum hætti. Ég trúi ekki öðru en að þessi áform verði endurmetin og hlustað á þær þungu aðvaranir sem hafa komið fram. Ég treysti því að atvinnuveganefnd muni skoða þetta mjög vel og hlusta á þær aðvaranir sem komið hafa. Markmiðið með orkuskiptum má ekki hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins.

Það er líka verið að ræða um í því máli sem verður mælt fyrir um hér á eftir, að rafvæða smábáta. Þá geti einstaklingar sem róa á strandveiðibátum haft möguleika á að fá meiri afla heldur en er í dag á hverjum degi. En ég tel og þeir sem þekkja til að það sé illframkvæmanlegt, svipað og ef einstaklingar færu sjálfir út í það að breyta sínum bensínbílum í rafbíla. Ef einstaklingur myndi fara út í það að breyta sínum strandveiðibát í bát knúinn með rafmagni þá gæti það kostað allt að 50 millj. kr. sem myndi auðvitað aldrei borga sig. Og auðvitað eru það vélaframleiðendur sem munu halda áfram að þróa nothæfan búnað svo að það verði hægt í framtíðinni að rafvæða skipaflotann og smábátaflotann. En sá veruleiki er ekki kominn á það stig að það sé raunhæft að tala um það í dag, það kemur fram hjá þeim sem þekkja vel til og vinna í þessum geira, í vélbúnaðarþróun og í skipatækni.

Ég vona bara að það verði hlustað á þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram og munu eflaust koma fram líka þegar um málið verði fjallað í hv. atvinnuveganefnd. Ég treysti því að þetta verði skoðað frá öllum hliðum og jákvæð orkuskipti verði ekki á kostnað umhverfismála í hafinu eða leiði til samþjöppunar í smábátaútgerð sem má ekki við því heldur á að styrkja hana enn frekar.