Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

Störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Nú þegar jólahátíðin nálgast er sárt til þess að vita hve margir eiga um sárt að binda og geta ekki notið jólahátíðarinnar eins og við hin sem erum betur sett. Það geta verið margar ástæður fyrir því að ekki eigi allir gleðileg jól, eins og veikindi, ástvinamissir, fátækt og/eða erfiðar félagslegar aðstæður. Í okkar samfélagi tel ég að allir reyni að leggja sig fram um að leggja sitt af mörkum til að styðja við þá sem eiga erfitt um jólahátíðina og það er hægt með ýmsum hætti og fólk gerir það með góðum hug. Við viljum ekki að fólk þurfi að leita til hjálparsamtaka um stuðning fyrir jólahátíðina en hinn kaldi veruleiki er því miður annar og í ár og undanfarin ár hafa margir ekki getað veitt sér og sínum nánustu það sem okkur hinum þykir sjálfsagt yfir jólahátíðina, að gera okkur dagamun í mat og drykk og gjöfum til okkar nánustu. Í landinu eru mörg góðgerðarsamtök sem hafa stutt fólk í erfiðum aðstæðum ásamt einstaklingum og fyrirtækjum sem leggja sitt af mörkum. Félagsmálaráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, úthlutaði í ár samtals 20 milljónum fyrir jólin í styrki til hjálparsamtaka sem styðja við viðkvæma hópa víða um land, einkum um mataraðstoð og í ár fá alls níu hjálparsamtök styrk til að geta stutt enn betur við þau sem þurfa að leita aðstoðar hjá hjálparsamtökum í aðdraganda jólanna. Einnig hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið styrkt verkefni um 12 milljónir sem heitir Efni með tilgangi sem er samstarfsverkefni hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Reykjavíkurborgar og er verkefnið hugsað fyrir konur í hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda, sem eru útsettar fyrir félagslegri einangrun. Hugsum vel um þá sem minna mega sín á þessum tímum og finnum þar með hin sanna jólaanda.