153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

staða byggingarrannsókna og nýsköpunar.

[15:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Í dag er haldin ráðstefna í Háskólanum í Reykjavík um byggingarrannsóknir með sérstaka áherslu á myglu og rakaskemmdir og áherslu á byggingargalla og fúsk í nýlegum byggingum, sem er auðvitað grafalvarlegt mál fyrir samfélagið og á ekki að líðast. Þegar ný lög um opinberan stuðning við nýsköpun í landinu voru samþykkt fyrir tveimur árum þá lögðum við í Vinstri grænum mikla áherslu á þær fjölþættu rannsóknir sem gerðar hafa verið í byggingarrannsóknum, að þeim yrði haldið áfram og sérfræðingar í háskólasamfélaginu myndu verða fengnir áfram til verksins og búnaður og verkfræðiþekking á þessu sviði nýtt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hver staða alhliðabyggingarrannsókna er í dag. Er verið að tryggja nægt fjármagn til þessarar mikilvægu rannsókna eins og ný lög gerðu ráð fyrir? Með nýjum lögum var markmiðið að auka opinberan stuðning við nýsköpun á landsvísu og m.a. með stofnun verkefnasjóðs fyrir nýsköpun á landsbyggðinni og öflugri gjaldfrjálsi ráðgjöf til frumkvöðla og ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort þetta hafi gengið eftir.

Einnig vil ég spyrja hvernig miði áfram varðandi uppbyggingu í nýsköpun í samstarfi við einkaaðila og opinbera aðila og háskóla um allt land og hvort auknu fjármagni hafi verið varið í þennan málaflokk úti um allt land. Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið sett á fót nýsköpunargátt í Stafrænu Íslandi eins og lögin gerðu ráð fyrir og hvort Tæknisetur hafa verið sett á fót og hvernig það hafi þróast og hvernig aðgengi er að því gagnvart frumkvöðlum alls staðar að, frá öllum stöðum á landinu.