Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil taka til máls um sjúkraflug í landinu og öryggismál sem snúa að sjúkraflugi. Árið 2021 kom út skýrsla um örugga lendingarstaði fyrir sjúkraflug og þar var mælt eindregið með því að flugvellir eins og á Blönduósi, sem hefur verið í umræðunni núna nýlega, verði malbikaðir svo hægt sé að nýta þá fyrir sjúkraflug og fyrir Landhelgisgæsluna. Það er mjög brýnt fyrir alla þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins að sjúkraflug sé öflugt og á það megi treysta. Þess vegna verður þetta að vera eitt af forgangsatriðum, tel ég, að malbika flugvöll eins og Blönduósflugvöll eins og margoft er búið að benda á af sveitarstjórnarfólki þar og heimamönnum og öðrum sem láta sig málið varða. Farið hefur verið, t.d. í vetur, í sjúkraflug mörgum sinnum í vetur frá mínu heimasvæði, Vestfjörðum, og bjargað þar mannslífum. Það skiptir því gífurlegu máli að þessir hlutir séu í lagi og þarf að efla þá hvar sem er á landinu því að eftir að samdráttur varð, erfitt að manna sjúkrahús úti um land, bæði af heilbrigðisstarfsfólki og sérstaklega læknum, hefur aldrei verið mikilvægara að fólk geti alfarið treyst á sjúkraflugið við hættulegar aðstæður.

Ferðaþjónustan er að blómstra og fjöldi ferðamanna er að aukast gífurlega. Með því skapast mikil slysahætta á þjóðvegum og alls konar slysahættur sem við þekkjum og mikið álag er á Landhelgisgæslunni og sjúkraflugi í þeim efnum. Þess vegna er það eitt af forgangsatriðunum, tel ég, að sjúkraflug í landinu sé eflt og tryggar aðstæður séu fyrir sjúkraflug þar sem við á. Það má ekki bíða því að þetta er leið til þess að bjarga fólki á skömmum tíma sem annars væri ekki hægt að gera ef það þyrfti aka á sjúkrabílum langar vegalengdir til að komast á hátæknisjúkrahúsið hér á höfuðborgarsvæðinu.